Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hefur lækkað um rúm 33,5% á árinu og hefur markaðsvirði félagsins farið niður um tæplega 2,7 milljarða.

Dagslokagengi Sýnar á síðasta viðskiptadegi ársins 2024 var 32,2 krónur og var markaðsvirði fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins um 8 milljarðar.

Hlutabréfaverð félagsins lokaði í 21,4 krónum í dag eftir um tæplega 8% lækkun í 79 milljóna viðskiptum. Markaðsvirði félagsins miðað við núverandi gengi er 5,3 milljarðar.

Ef tíu stærstu hluthafar Sýnar eru skoðaðir miðað við upplýsingar um eignarhluti þeirra í janúarmánuði hefur virði eignarhlutar Gavia Invest ehf., sem er stærsti hluthafi Sýnar, rýrnað um 487,6 milljónir á árinu.

Gavia keypti hluta­bréf í Sýn fyrir 60 milljónir króna í lok síðasta árs. Félagið keypti 2 milljónir hluta á genginu 30,0 krónur á hlut.
Eftir við­skiptin átti Gavia 45.147.128 hluti, eða um 18,2% eignar­hlut í Sýn.
Markaðsvirði eignar­hlutar Gavia í Sýn var tæp­lega 1,5 milljarður í árs­byrjun. Núverandi markaðsvirði er 966 milljónir króna.
Há­kon Stefáns­son stjórnar­for­maður Sýnar og Ragnar Páll Dyer, stjórnar­maður í Sýn, sitja báðir í stjórn Gavia.
Þeir starfa báðir sem fram­kvæmda­stjórar hjá fjár­festingarfélaginu Info­Capi­tal sem á 80,7% hlut í Gavia. Info­Capi­tal er í 97% eigu Reynis Grétars­sonar, stofnanda og fyrr­verandi for­stjóra CreditIn­fo.

Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um 3,5% í viðskiptum dagsins og var daglokagengi líftæknilyfjafélagsins 1.715 krónur.

Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um rúm 2% og lokaði 1,34 krónum eftir um 160 milljón króna viðskipti.

OMXI15 úrvalsvísitalan hækkaði um 0,25% og var heildarvelta á markaði 2,3 milljarðar.