Helstu hluta­bréfa­vísi­tölur Banda­ríkjanna hafa hækkað veru­lega á fyrstu fimm mánuðum ársins og stendur S&P 500 vísi­talan í sögu­legum hæðum.

Af­komu­spár skráðra fyrir­tækja og árs­hluta­upp­gjör hafa hingað til verið afar já­kvæð og eru greiningar­aðilar byrjaðir að færa upp spár sínar fyrir árið upp á við.

Á síðustu tveimur vikum hafa greiningar­deildir Bank of America, BMO Capi­tal Markets og Deutsche bank fært m.a. spár sínar fyrir gengi S&P 500 veru­lega upp.

Úrvalsvísitalan stendur í 5.304 stigum eftir um 12% hækkun á árinu en að mati BMO Capi­tal markets mun vísi­talan fara yfir 5.600 stig fyrir árs­lok.

Yfir­maður fjár­festinga hjá BMO, Brian Belski, segir í sam­tali við Ya­hoo Finance að í þeirra spá er gert fyrir um tveimur vaxta­lækkunum á árinu sem er í sam­ræmi við flestar nú­verandi vaxta­spár.

„Okkur varð ljóst snemma á árinu að við van­mátum styrk markaðarins sér í lagi í vegna að núna eru væntingar fjár­festa og til­mæli Seðla­bankans að fylgjast að en svo var ekki í byrjun árs,“ skrifar Belski í greiningu BMO.

„Nú­verandi um­hverfi er það sem bolar hafa verið að vonast eftir,“ segir Ohsung Kwon, verð­bréfa­sér­fræðingur hjá Bank of America í sam­tali við Ya­hoo Finance.

Í byrjun árs voru greiningar­deildir vestan­hafs á því að af­koma fyrir­tækja á fyrsta fjórðungi myndi hafa mikil á­hrif á markaðinn. Það reyndist svo­sem rétt en hagnaður fyrir­tækja í S&P 500 jókst um 6% á milli ára og hefur ekki aukist jafn mikið milli ára síðustu tvö ár.

Bin­ky Chadha, yfir­maður verð­bréfa­deildar Deutsche Bank, telur að af­koma fyrir­tækja í S&P 500 muni halda á­fram að koma á ó­vart með árinu en Deutsche bank býst við því að vísi­talan endi árið í að minnsta kosti 5.500 stigum. Mun það vera tölu­verð hækkun úr 5.100 stiga spá bankans í árs­byrjun.

Chadha telur enn tölu­vert svig­rúm fyrir frekari hækkanir á hluta­bréfa­markaði en ef fram­leiðni heldur á­fram að vextir lækka úti­lokar hann ekki S&P 500 vísi­talan fari yfir 6.000 stigin.