Á morgun eru nákvæmlega tvö ár frá því að núverandi bolamarkaður í Bandaríkjunum hófst en frá þeim tíma hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 62%.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 21,2% á árinu og á þeim tíma hefur lokagildi hennar verið 44 sinnum í methæð samkvæmt MarketWatch.
Fjölmargir spáðu því að efnahagssamdráttur væri yfirvofandi í ársbyrjun en stóru fjárfestingabankarnir hafa til að mynda þurft að uppfæra spá sína fyrir gengi S&P 500 á árinu oftar en einu sinni.
Samkvæmt MarketWatch fer bjarndýrum fækkandi og margir spá því að úrvalsvísitalan nái upp í 6000 stig innan tíðar en ef það gerist aukast líkurnar á að fjárfestar láti velgengni markaðarins leiða sig í gönur.
Ryan Detrick, aðalmarkaðssérfræðingur Carson Group, segir í samtali við MW að bolamarkaðurinn sé enn frekar ungur í sögulegu samhengi.
„Sögulega séð á bolamarkaðurinn nóg líf eftir en frá árinu 1950 hafa flestar uppsveiflur af þessu tagi staðið yfir í meira en fimm ár með um 180% hækkun S&P,“ segir Detrick.
Spurður um hvort hann telji þriðja árið verði jafn öflugt og síðustu tvö, segir Detrick að fjárfestar munu líklegast þurfa hafa meira fyrir því að finna arðbærar fjárfestingar á næsta ári en í ár.
„Af síðustu 16 bolamörkuðum sem komu í kjölfar niðursveiflu fengu 12 að fagna þriggja ára afmæli sínu og var meðaltalsávöxtur þriðja ársins um 8%,“ segir Detrick.
Eitt stærsta áhyggjuefnið að sinni er þó yfirvofandi forsetakosningar í Bandaríkjunum og segir Detrickt þær geta valdið flökti. „Sögulega hafa þó nóvember og desembermánuðir verið ágætir fyrir hlutabréfamarkaðinn.“