„Að opna rafhlaupahjólaleigu í landi þar sem er vont veður og langir vetur er eflaust ekkert sérstaklega rökrétt. En við höfum góða reynslu af því að reka slíkar leigur í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, sem og í öðrum löndum í Evrópu þar sem aðstæður eru ekki ósvipaðar og á Íslandi,“ segir Martin Tansøy, rekstarstjóri Bolt, þegar hann er spurður af hverju félagið hafi ákveðið að opna á Íslandi.
Bolt tilkynnti fyrir helgi að það hefði opnað í Reykjavík. Fyrst um sinn verða 800 Bolt 5-rafhlaupahjól í Reykjavík og þurfa ökumenn að vera 16 ára eða eldri til að geta nýtt sér þjónustuna, eins og gengur og gerist með slík ökutæki.
Drægni hjólanna er 55km og hámarkshraði er 25km á klukkustund. Þá fer hraðinn sjálfvirkt niður í 6km á klukkustund þegar ekið er á svokölluðum lághraðasvæðum sem Reykjavíkurborg hefur skilgreint.
10 mínútna ferð á 150 krónur
Ökumenn greiða 15 krónur á mínútuna til að leigja Bolt rafhlaupahjól, en athygli vekur að Bolt rukkar ekkert startgjald ólíkt hinum tveimur rafhlaupahjólaleigunum á Íslandi, þeim Hopp og Zolo. Þannig kostar tíu mínútna ferð með Bolt 150 krónur. Til samanburðar er startgjaldið hjá Hopp, stærstu rafhlaupahjólaleigu á Íslandi, 115 krónur og mínútugjaldið 39 krónur. Hjá Zolo er startgjaldið 110 krónur og mínútugjaldið 38 krónur.
„Það er dýrt að leigja þessi hjól á Íslandi og mun dýrara en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ástæðan fyrir því er lítil samkeppni, það eru tveir aðilar á markaðnum og annar þeirra er mun stærri en hinn. Við vonumst til þess að íbúar og ferðamenn í Reykjavík njóti góðs af innkomu okkar á markaðinn.“

Að auki ætlar Bolt að bjóða upp á dag, viku- og mánaðarpassa fyrir sína viðskiptavini, sem er í raun afsláttur fyrir þá sem nota hjólin reglulega. Dagpassi með 60 mínútna akstri kostar 539 krónur, vikupassi með 150 mínútna akstri kostar 1.499 krónur og mánaðarpassi með 300 mínútna akstri kostar 2.999 krónur.
„Okkar markmið er að vera ódýrasta leigan í Reykjavík. Við viljum fá fólk til að skilja bílinn eftir heima og nota rafhlaupahjól í staðinn. Til að það geti gerst þarf hjólið að vera ódýrt. Við viljum líka uppfylla þarfir mismunandi viðskiptavina, bæði þeirra sem nota hjólin endrum sinnum, en einnig þeirra sem nota hjól daglega. Fyrir síðarnefnda hópinn hentar mánaðarpassinn einstaklega vel.“
Nánar er rætt við Martin í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.