Landsréttur staðfesti fyrir helgi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella að fullu niður 500 milljón króna stjórnvaldssekt Samkeppniseftirlitsins á Símann eftir áralanga deilu fjarskiptafyrirtækisins og eftirlitsins um enska boltann.
„Ef við tökum stofnanirnar sem hafa komið að þessu máli þá er það Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála, Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur. Nú er Samkeppniseftirlitið að velta fyrir sér hvort fimmta stofnunin, Hæstiréttur, þurfi að koma að þessu máli líka,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans en Samkeppniseftirlitið gaf það út skömmu eftir niðurstöðu Landsréttar að til skoðunar sé að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.
Málið er í raun tvíþætt en hinn angi málsins er bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins í fyrra um að Síminn hafi „sennilega“ brotið lög með því að endurnýja ekki endursölusamning á enska boltanum til Nova.
Síminn reyndi að fá þeirri ákvörðun hnekkt en bráðabirgðaákvarðanir eru ekki kæranlegar og þarf að bíða eftir lokaákvörðun. SKE ákvað í janúar að taka ekki lokaákvörðun í málinu, sem hefur skapað réttaróvissu um endursöluna.
„Núna höfum við í fimm ár verið að eyða tíma og kostnaði í þetta. Þessi veiðiferð sem endaði sem lautarferð hefur engu skilað hjá þeim nema í kostnaði hjá okkur sem hleypur á hundruðum milljóna,“ segir Orri og á þar við um ytri lögfræðikostnað og svo innri kostnað starfsmanna Símans.
Umdeild málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins
Málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins er ekki í samræmi við meginreglur íslensks réttar um að úrlausn æðra setts stjórnvalds sé bindandi fyrir lægra sett stjórnvalds. Í drögum að frumvarpi sem varð að samkeppnislögum árið 2020 var lagt til að heimild SKE til að áfrýja úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómstóla yrði felld úr gildi en eftirlitið mótmælti harðlega og fékk því breytt.
Heimildin hefur í för með sér mikla töf á samkeppnismálum sem geta nú farið í gegnum tvö stjórnsýslustig og þrjú dómstig með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki og eftirlitið sjálft. Hefur einnig verið bent á að heimildin dragi úr vægi áfrýjunarnefndar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinusem kom út í gær og geta áskrifendur lesið greinina í heild sinnihér.