Meðal kaupaukar hjá starfsfólki í verðbréfaiðnaði í New York á síðasta ári námu um 244,7 þúsund dölum, eða um 32,5 milljónum króna, samkvæmt áætlunum Thomas DiNapoli, gjaldkera (e. Comptroller) New York fylkis. Um er að ræða 31,5% aukningu frá fyrra ári.

Heildarfjárhæð bónusa á Wall Street í fyrra nam 47,5 milljörðum dala og hefur ekki verið meiri frá því að mælingar hófust árið 1987, samkvæmt umfjöllun Bloomberg. Þar segir að þóknanir af verðbréfaviðskiptum og sölutryggingum (e. underwriting) hafi átt stóran þátt í að hagnaður verðbréfafyrirtækja nær tvöfaldaðist.

„Styrkur fjármálamarkaðarins er góðs viti fyrir hagkerfi New York og fjárhagsstöðu okkar sem reiðir sig á þessar skatttekjur,“ sagði DiNapoli. Hann bætti við að meiri óvissa væri um framhaldið, m.a. í tengslum við breytta stefnu stjórnvalda, sem kunni að hafa neikvæð áhrif á verðbréfaiðnaðinn í ár.

Um 19% af skatttekjum New York fylkis á árunum 2023 og 2024 má rekja til Wall Street. Hærri bónusar á árinu 2024 munu leiða af sér 600 milljónum dala auknar skatttekjur til fylkisins og 275 milljónum dala auknar tekjur til borgarinnar samanborið við árið 2023, samkvæmt greiningu DiNapoli.

Hann greindi jafnframt frá því að fjöldi starfsmanna á verðbréfamarkaðnum á Wall Street hafi ekki verið meiri í rúmlega 30 ár. Alls starfi 201,5 þúsund manns í geiranum.

DiNapoli benti í því samhengi á að hlutfall New York borgar af heildarfjölda starfa í bandaríska verðbréfaiðnaðinum hafi lækkað úr 33% frá árinu 1990 í 18% í dag, sem hann rakti til þess að mörg fjármálafyrirtæki hafi á síðustu árum flutt störf til annarra svæða til að draga úr kostnaði.