Netverslunin Boozt hefur ákveðið að fækka stöðugildum um ríflega 10% samkvæmt kauphallartilkynningu félagsins sem er skráð í Danmörku og Svíþjóð.

Starfsmenn félagsins voru 1.170 talsins í lok september og má því ætla að félagið gæti sagt upp yfir hundrað manns. Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi á fyrsta ársfjórðungi 2025.

Hermann Haraldsson, stofnandi og forstjóri Boozt, segir að ákvörðunin um að fækka starfsfólki sé mikilvægt skref í átt að langtímamarkmiði félagsins um 10% framlegð ásamt því að byggja upp sjálfbæran og samkeppnishæfan rekstur.

Í tilkynningu Boozt segir að félagið hafi ákveðið að ráðast í skipulagsbreytingar sem eiga að endurspegla vaxandi áhrif tækninýjunga og aukinnar innleiðingar gervigreindartóla í allri virðiskeðju félagsins.

Netverslunin tilkynnti þann 2. janúar síðastliðinn um að bráðbirgðatölur fyrir árið 2024 bendi til þess að tekjur félagsins hafi aukist um 6% milli ára og numið um 8,2 milljörðum sænskra króna, eða um 103 milljörðum íslenskra króna. Þetta er undir áætlun sem Boozt greindi frá í kjölfar Svarts föstudagar (e. Black Friday) í byrjun desember en þá gerði félagið ráð fyrir 7% tekjuvexti milli ára.

Hlutabréfaverð Boozt hefur lækkað um 11% það sem af er ári og stendur nú í 111,3 sænskum krónum á hlut. Gengi hlutabréfa félagsins eru um 17,7% lægri en í árslok 2023.