Guðrún R. Axelsdóttir, hefur rekið verslunina Bernharð Laxdalá samt eiginmanni sínum, Einari Eiríkssyni, síðan 2001 en áður hafði verslunin verið í eigu sömu fjölskyldunnar.

Guðrún R. Axelsdóttir, hefur rekið verslunina Bernharð Laxdalá samt eiginmanni sínum, Einari Eiríkssyni, síðan 2001 en áður hafði verslunin verið í eigu sömu fjölskyldunnar.

Guðrún segist mjög stolt af sögu verslunarinnar enda ekki algengt að verslanir á Íslandi starfi jafnlengi. Hún segir að rekstur verslunarinnar hafi alltaf verið stígandi og allt sé á réttri leið.

„Fólk er kannski ekki með eins mikla peninga á milli handanna og áður. Það hefur þrengt að þetta háa vaxtastig og mér skilst að mörg fyrirtæki hafi verið að ströggla.”

Guðrún segir að árið í ár sé á svipuðu róli og það síðasta en þá nam hagnaðurinn 78 milljónum króna, sem var þrefalt meira en árið 2022.

„Það eru samt alltaf einhverjar sveiflur. Ég veit ekki hver orsökin er, kannski er það sumarvertíðin, en sumarið staldraði stutt við og kom seint, það hafði áhrif á söluna. Þetta gengur samt ágætlega hjá okkur."

„Við finnum hins vegar fyrir því að fólk er orðið meðvitað um að það margborgar sig að kaupa eitthvað sem endist og er vandað. Föt sem eru falleg og fólk gleðst yfir að klæðast. Frekar en að vera alltaf að kaupa eitthvað ódýrt, það er gjörólíkt og okkur hefur fundist að þetta sé að vega þyngra en áður.”

Breiður kúnnahópur

Verslunin er fyrst og fremst þekkt fyrir að vera yfirhafnaverslun en þegar hún var stofnuð var áherslan nær eingöngu á yfirhafnir. Merki verslunar sýnir líka konu í síðri kápu með regnhlíf. Guðrún segir að það sé merkileg saga á bak við merkið.

„Þannig er að merkið var gert um 1960. Þyrí Laxdal, fyrrverandi eigandi, þekkti Vigdísi Finnbogadóttur forseta," segir Guðrún. „Fyrir milligöngu Vigdísar hannaði Magnús Pálsson, einn okkar flottasti listamaður, merkið sem við höfum notað í hverri einustu auglýsingu síðan. Við erum mjög trúar þessum uppruna og hann hefur alltaf verið í fyrirrúmi hjá okkur. Hins vegar er breiddin orðin meiri og nú er orðið jafnt almennur fatnaður og sparifatnaður.”

Hún segir að kúnnahópurinn sé breiður. „Það byrjar oft á að dætur koma með mæðrum sínum og svo fara þær að versla og svo þeirra dætur. Með stafrænni markaðssetningu náum við til yngri kvenna, og það er bylgja að vera í vönduðum fötum, svo þetta styður hvað annað.”

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.