Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, voru gestir Björns Inga Hrafnssonar í Grjótkastinu í dag.
Formennirnir tveir tókust þar á um ýmis málefni en sammæltust þó um að nú væri ekki tími fyrir vinstri stjórn.
„Borgaraleg ríkisstjórn er það sem við þurfum núna. Ekki hærri skatta. Við þurfum minni ríki og þurfum að hafa trú á okkur sjálfum svo við þurfum ekki að fara til Evrópska Seðlabankans til að sækja gjaldeyri,“ sagði Bjarni.
Sigmundur Davíð tók undir þetta allt en bætti við að eina leiðin til að ná þessu væri með því að kjósa sig.
Bjarni var jafnframt spurður um framtíð sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hvort hann væri að hætta í stjórnmálum.
„Nei, ég er í þessu til að ná árangri,“ sagði Bjarni og spurði Björn Ingi þá hvort hann þyrfti nú ekki að fara segja sínu fólki það?
„Hvernig getur fólk látið sér detta í hug að ég sé að hætta þegar ég boða til kosninga og fer fremstur í mínu kjördæmi og er um allt land að boða Sjálfstæðisstefnuna. Til að ná árangri fyrir flokkinn og koma að myndun nýrrar borgaralegrar ríkisstjórnar,“ sagði Bjarni.
Björn Ingi spurði hvort það hafi aldrei hvarflað að honum þegar „allt var í skrúfunni“ að stíga niður og láta Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur varaformann flokksins taka við.
„Ég held að henni hafi ekki verið gerður neinn greiði með því hvort er. Hjá Sjálfstæðisflokknum fer það langbest að menn nýti rétta vettvanginn, sem er landsfundur, til að velja forystu frá einum tíma til annars. Ég hef verið svo heppinn að fá ítrekað endurnýjað umboð frá landsfundi,“ sagði Bjarni.