Samfylking, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands, Flokkur fólksins og Vinstri græn hafa lagt fram sína fyrstu aðgerðaáætlun á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur sem byggist á samstarfsyfirlýsingu sem var nýlega kynnt.
Þar má finna 25 tillögur sem koma allar til framkvæmda í ráðum og nefndum borgarinnar en tekið er fram að á meðal forgangsmála séu húsnæðisuppbygging, fjölgun leikskóla, ráðdeild og skilvirkni.
Borgarstjórn leggur þá til samstarf milli Reykjavíkurborgar og verkalýðshreyfingar þar sem markmiðið er að formgera samstarf um þróun nýrra leiða við skipulag, uppbyggingu húsnæðis og innviða og fjármögnun þeirra.
„Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagsráði að vinna tillögur að aðgerðum Reykjavíkurborgar gegn lóðabraski með því m.a. að setja ákveðnari ákvæði um tímabindingu uppbyggingarheimilda í skipulagsáætlunum (sbr. grein 37 a í gildandi skipulagslögum), takmarka endursöluheimildir á lóðum í eigu hins opinbera, setja ákveðnari skilmála og tímabindingu í lóðarleigusamninga borgarinnar og tryggja að úthlutun lóða og samvinna um deiliskipulag verði milliliðalaus við byggingaraðilann sjálfan,“ segir jafnframt í aðgerðaráætlun.
Borgarstjórn vill einnig ráðast í heildarendurskipulagningu Mjóddarinnar í samráði við íbúa og vinna að úrbótum á biðstöðinni og nærliggjandi umhverfi.
„Húsdýragarðurinn, sem er nú samrekinn með Dýraþjónustu Reykjavíkur, er í auknum mæli að virka sem dýraathvarf og þjónustumiðstöð fyrir dýratengd málefni á höfuðborgarsvæðinu. Hlúa þarf vel að dýrunum í borginni svo þau lifi við ásættanlegan og mannúðlegan aðbúnað. Dýravelferðarlög leyfa ekki að selunum sé sleppt í náttúruna enda eru þeir aldir upp í haldi allt sitt líf. Lagaskylda hvílir á sveitarfélögum gagnvart villtum dýrum í neyð og dýrum á vergangi og því hlutverki þarf borgin að sinna af alúð.“