Borgaryfirvöld í tékknesku höfuðborginni Prag hafa ákveðið að banna skipulagðar pöbbaröltsferðir á vegum ferðaskrifstofa. Með banninu vilja yfirvöld minnka straum fyllerísferðamanna til borgarinnar.
Skipulagðar kráaferðir, sem eru gjarnan vinsælar hjá gæsa- og steggjaveislum og þá sérstaklega þeim sem koma frá Bretlandi, verða bannaðar milli klukkan 22:00 og 06:00.
Jiri Pospisil, aðstoðarborgarstjóri Prag, segir að hann vilji að borgin verði staður þar sem fágun og virðing fyrir sameiginlegu almenningsrými séu sett í forgang.
Prag er ekki eina evrópska borgin sem vill fæla frá djammandi (breska) ferðamenn. Á síðasta ári fór í gang herferð í Amsterdam sem hvatti unga breska karlmenn, sem ferðuðust til hollensku höfuðborgarinnar til að djamma og nota fíkniefni, til að fara eitthvert annað.
Ákvörðunin í Prag var þá einnig tekin í ljósi þeirra hávaðakvartana sem hafa borist vegna ölvaðra ferðamanna. Íbúar segja einnig að þróunin hafi gefið borginni neikvætt orðspor.