Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð við Varmahlíð 1.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni en þar segir að tekist hafi að snúa rekstri hússins úr áratugalöngu tapi í arðbæra leigu.
Samkvæmt tilkynningu er fasteignamat Perlunnar 4 milljarðar.
„Á þeim tíu árum sem liðin eru frá kaupum borgarinnar á Perlunni hefur orðið algjör viðsnúningur á rekstrinum og standa tekjur vel undir kostnaði. Húsnæðið var auglýst til leigu og er núverandi leigutaki Perla norðursins ehf. sem hefur þróað hana sem áhugaverðan áfangastað í Reykjavík.“
Stærð hússins og tanka er um 5800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur.
Hitaveita Reykjavíkur byggði Perluna og var hún opnuð árið 1991. Reykjavíkurborg keypti Perluna árið 2013 og síðar tvo vatnstanka af Orkuveitu Reykjavíkur.
Á þeim tíma sem kaupin fóru fram stóð rekstur hússins ekki undir sér og tekjur rétt nægjanlegar fyrir fasteignagjöldum og lóðarleigu, samkvæmt borginni.
Töpuðu 7 milljörðum á 6 mánuðum
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar til júní var lagður fyrir borgarráð í dag en reikningurinn sýnir að rekstrarniðurstaða samantekins A- og B-hluta var neikvæð um 6,7 milljarða króna.
Er það langt frá áætlun borgarinnar sem gerði ráð fyrir að reksturinn yrði jákvæður um 6 milljarða.
Niðurstaðan er því 12,8 milljörðum króna lakari en áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir.