Reykjavíkurborg hefur ákveðið að hætta við fyrirhugað skuldabréfaútboð sem til stóð að færi fram á morgun, 12. apríl. Um er að ræða annað slíka útboðið í röð sem borgin hættir við.
Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21 milljarð króna í ár en borgin hefur þegar selt skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð það sem af er ári.
Í tilkynningu borgarinnar kemur fram að borgarsjóður hafi einnig dregið 3 milljarða af 10 ára lánalínu að fjárhæð 6 milljarðar króna hjá Íslandsbanka sem tilkynnt var um í byrjun janúar.
Borgin hafði einnig samið í haust um 6 milljarða króna lánalínu til 15 ára hjá Landsbankanum, en ekki hefur verið gefið út hvort dregið hafi verið á hana enn eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst.
Í útgáfuáætlun Reykjavíkurborgar fyrir fyrri hluta árs 2023, sem gefin var út í byrjun janúar, var áformað að skuldabréfaútboð borgarinnar yrðu á eftirfarandi dögum:
- 11. janúar
- 8. febrúar
- 8. mars (hætt við)
- 12. apríl (hætt við)
- 10. maí
- 7. júní
„Raunveruleg hætta á greiðsluþroti“
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerði lántökuáætlun borgarinnar að umræðu á borgarstjórnarfundi í síðustu viku. Á fundinum kallaði Kjartan eftir því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerði grein fyrir því hvernig borgin væri fjármögnuð og um vaxtakjör á framangreindum lánalínum.
Kjartan sagðist hafa fengið afar litlar upplýsingar um málið hjá borgarstjóra sem vildi fremur ræða málið í borgarráði eða í næsta mánuði við framlagningu ársreiknings borgarinnar fyrir árið 2022.
Kjartan lýsti yfir áhyggjum af því að ávöxtunarkrafa á skuldabréfum borgarinnar hefði hækkað að undanförnu og væri nokkuð hærri en kröfur á samanburðarhæf bréf sem leiði til þyngri vaxtabyrði Reykjavíkurborgar á nýjum lánum.
„Þróun lánsfjármögnunar Reykjavíkurborgar að undanförnu er uggvænleg vísbending um mjög alvarlega fjárhagsstöðu hennar. Svo virðist sem skuldabréfamarkaðurinn sé að loka á borgina,“ sagði Kjartan.
„Ef svo heldur fram sem horfir er raunveruleg hætta á greiðsluþroti hjá Reykjavíkurborg. Æskilegt er að fjárhagur Reykjavíkurborgar verði tekinn til skoðunar í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála.“