Reykjavíkurborg skoðar nú að sækja um og hefja viðræður við Þróunarbanka Evrópuráðsins, CEB, um lánsfjármögnun. Í tilkynningu borgarinnar kemur fram að málið verði tekið fyrir á fundi borgarráðs á fimmtudaginn.

Einnig verður borin undir borgarráð tillaga um útgáfu á nýjum skuldabréfaflokkum. Borgin hyggst tilkynna um um afgreiðslu borgarráðs um leið og hún liggur fyrir.

Þróunarbanki Evrópuráðsins í París (CEB) var stofnaður árið 1956 af nokkrum löndum innan Evrópuráðsins og eru aðilar að bankanum nú 43 ríki, þar á meðal Ísland.

Á heimasíðu Lánasjóðs sveitarfélaga, sem hefur á undanförnum árum sótt lánsfé hjá CEB í evrum, kemur fram að Þróunarbankinn hafi fyrst og fremst félagsleg markmið og var verkefni hans í fyrstu að fjármagna félagslegt íbúðarhúsnæði og aðra uppbyggingu, sem tengdust aðstoð við flóttafólk og heimilislaust fólk í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina. CEB hefur einnig lagt áherslu á, síðustu ár, að fjármagna umhverfisbætandi og sjálfbærnitengd verkefni.

Borgin sótti rúman 21 milljarð króna í lánsfjármögnun á síðasta ári. Auk fjármögnunar með útgáfu skuldabréfa fullnýtti borgin sex milljarða króna lánalínu hjá Íslandsbanka. Borgin hafði áður dregið á 6 milljarða lánalínu hjá Landsbankanum að fullu.

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 og fimm ára tímabilið til ársins 2028 er áætlað að borgin taki lán fyrir allt að 16,5 milljarða króna í ár. Það samsvarar 4,5 milljarða lækkun frá síðasta ári.

„Á árunum 2021-2023 var A-hluti í talsverðum lántökum til samræmis við Græna planið. Á áætlunartímabilinu 2024 til 2028 er gert ráð fyrir lækkandi lántöku og að það dragi saman með afborgunum og nýjum lántökum.“

Áætluð lántaka Reykjavíkurborgar á næstu fimm árum, samkvæmt fjárhagsáætlun.

Ellefu skuldabréfaútboð eru á útgáfuáætlun borgarinnar í ár en en borgin hefur þegar lokið tveimur þeirra.

Í fyrra útboðinu tók borgin tilboðum að nafnvirði 305 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,49% í verðtryggða flokkinum RVK 53 og tilboðum að nafnvirði 1.425 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 8,94% í óverðtryggða flokkinum RVKN 35. Í seinna útboðinu tók borgin tilboðum að nafnvirði 3.765 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 8,42% í óverðtryggða flokknum RVKN 35.

Útgáfuáætlun borgarinnar: