Reykjavíkurborg hefur selt skuldabréf til 9 og 25 ára fyrir tæpa 3,7 milljarða króna. Bréfin voru seld í nýafstöðnu skuldabréfaútboði í verðtryggðu flokkunum RVK 32, sem selt var í fyrir 2,7 milljarða á 3,9% ávöxtunarkröfu, og RVKG 48 sem selt var í fyrir 950 milljónir á 3,35% kröfu.
Útboðið hófst í gær í samræmi við útgáfuáætlun borgarinnar. Lántökuheimild hennar hljóðar upp á alls 21 milljarð króna á þessu ári en eftir útboðið hefur borgin sótt sér alls ríflega 13,7 milljarða króna það sem af er ári.
Heildartilboð námu alls 8.260 milljónum króna að nafnvirði, þar af 6.910 milljónir í RVK 32 á bilinu 3,84% og 4,04%, og 1.350 í RVKG 48 á bilinu 3,33% og 3,40%.
Lánskjör borgarinnar hafa versnað þónokkuð það sem af er ári í samanburði við skuldir ríkisins og tvívegis hefur verið hætt við skuldabréfaútboð með litlum fyrirvara, fyrst í mars og svo í apríl.
Álagið hækkað mikið síðustu misseri
Miðað við ávöxtunarkröfu sambærilegra ríkisskuldabréfa (eignasafn svipað langra bréfa í hlutföllum sem gefa sama meðallánstíma) í dag bar RVK 32 178 punkta (1,78%) álag ofan á þau í útboðinu, en til samanburðar var álagið 114 um síðastliðin áramót og fór í fyrsta sinn yfir 100 punkta frá upphafi heimsfaraldursins í ágúst síðastliðnum.
Lengsta verðtryggða ríkisskuldabréfið, RIKS 37 með lokagjalddaga árið 2037, er rúmum áratug styttra en RVKG 48 en útboðskjör þess flokks voru 140 punktum yfir fyrrnefndu ríkisbréfi. Arion banki gefur út verðtryggðan sértryggðan skuldabréfaflokk með lokagjalddaga sama ár og borgarbréfið langa, en síðustu viðskipti með þau bréf áttu sér stað í lok janúar á kröfunni 2,55%. Leigufélagið Alma gefur einnig út jafn löng bréf og voru síðustu viðskipti með þau þann 10. janúar á kröfunni 3,25%.