Reykjavíkurborg hefur selt skuldabréf fyrir tæpa fjóra milljarða á kjörum sem fara nú ört versnandi í samanburði við ríkisbréf eftir hóflegan bata í því tilliti frá því í vor. Nærri öllum tilboðum var tekið í báðum útboðnum markflokkum eða um 3,9 milljörðum af 4,3.

Borgin hafnaði öllum tilboðum í síðasta útboði sínu um miðjan ágúst, þar sem boðinn var milljarður í sama óverðtryggða bréf og nú var selt, á kröfu sem var meira en prósentustigi lægri en nú var gengið að.

Óverðtryggð vaxtakjör borgarinnar voru 9,78% í útboðinu og hafa hækkað um ríflega hálft prósentustig síðastliðinn mánuð og tæp 1,8% síðastliðið ár, en þau verðtryggðu voru 4,68% og hafa risið 0,6% síðasta mánuðinn og 2% síðasta árið.

Selt var fyrir ríflega 1,8 milljarða í verðtryggða flokknum RVK 32 á ávöxtunarkröfunni 4,68% sem er tæplega 2% yfir ríkiskröfunni miðað við sama lánstíma. Leita þarf langt aftur til að finna sambærileg vaxtakjör á verðtryggðum opinberum skuldum, og vaxtaálagið ofan á ríkiskjörin – sem stendur nú í 191 punkti (1,91%) – er aðeins hársbreidd frá því að slá 193 punkta metið frá því í byrjun júlí og hefur hækkað um 24 frá upphafi þessa mánaðar.

Á óverðtryggðu hliðinni tók borgin tilboðum upp á rúma 2 milljarða í RVKN 35 á kröfunni 9,78%. Álagið á ríkið þeim megin stendur nú í 272 punktum og hefur hækkað um 55 punkta frá ágústlokum, og 70 ef farið er sléttan mánuð aftur í tímann.

Enn eru þó 35 punktar í metið þar sem var 307 punkta álag í lok mars á þessu ári, en í ársbyrjun stóð álag beggja flokka í rétt ríflega 100 punktum, og áramótin þar áður var það aðeins 42 punktar á RVKN 35 á meðan RVK 32 var þremur punktum undir ríkinu, eða svo gott sem á pari.

Sé horft til vaxtakjaranna sjálfra hafa verðtryggðir vextir RVK 32 nú hækkað um 62 punkta síðastliðinn mánuð og 199 síðastliðið ár, en þeir óverðtryggðu á RVKN 35 um 53 og 178 yfir sömu tímabil, eins og vikið var að í upphafi.