Borgarráð samþykkti í dag að heimila Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra að sækja um um lán að fjárhæð 100 milljónir evra til Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB) til fjármögnunar á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundar.
Í íslenskum krónum nemur fjárhæðin um 15 milljörðum króna eða um 50% af þeirri áætlun sem lá fyrir við upphaf verkefnisins.
„Verði lánsumsókn Reykjavíkurborgar afgreidd með jákvæðum hætti er borgarstjóra veitt heimild til að hefja viðræður um lánskjör og undirbúa drög að gerð lánasamnings,“ segir í Kauphallartilkynningu borgarinnar.
Borgarráð samþykkti einnig heimild fyrir fjármála- og áhættustýringarsvið til að leita tilboða og samþykkja tilboð í umsjón með útgáfu á nýjum óverðtryggðum skuldabréfaflokki til skemmri tíma, þ. e. til 3-5 ára.
Fjárhæð útgáfunnar yrði allt að 3 milljarðar króna, samkvæmt tilkynningu borgarinnar en borgin heldur því fram að markmiðið sé að „auka úrval fjárfestingarkosta á skuldabréfamarkaði og ná til breiðari hóps fjárfesta en megnið af útgefnum skuldabréfum Reykjavíkurborgar eru til langs tíma.“
Borgin sótti rúman 21 milljarð króna í lánsfjármögnun á síðasta ári. Auk fjármögnunar með útgáfu skuldabréfa fullnýtti borgin sex milljarða króna lánalínu hjá Íslandsbanka. Borgin hafði áður dregið á 6 milljarða lánalínu hjá Landsbankanum að fullu.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 og fimm ára tímabilið til ársins 2028 er áætlað að borgin taki lán fyrir allt að 16,5 milljarða króna í ár. Það samsvarar 4,5 milljarða lækkun frá síðasta ári.
„Á árunum 2021-2023 var A-hluti í talsverðum lántökum til samræmis við Græna planið. Á áætlunartímabilinu 2024 til 2028 er gert ráð fyrir lækkandi lántöku og að það dragi saman með afborgunum og nýjum lántökum.“
Ellefu skuldabréfaútboð eru á útgáfuáætlun borgarinnar í ár en en borgin hefur þegar lokið tveimur þeirra.
Í fyrra útboðinu tók borgin tilboðum að nafnvirði 305 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,49% í verðtryggða flokkinum RVK 53 og tilboðum að nafnvirði 1.425 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 8,94% í óverðtryggða flokkinum RVKN 35.
Í seinna útboðinu tók borgin tilboðum að nafnvirði 3.765 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 8,42% í óverðtryggða flokknum RVKN 35.