Reykjavíkurborg hefur tilkynnt um niðurstöðu skuldabréfaútboðs sem lauk í gær. Borgin tók tilboðum í tveimur verðtryggðum flokkum fyrir samtals um 3,2 milljarða króna að nafnvirði en tilboð bárust að nafnvirði 4,6 milljarða króna í flokkana.
Borgin tók við tilboðum samtals að nafnvirði 1.280 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,61% í verðtryggðum flokki RVK 32 I. Alls bárust tilboð að nafnvirði 1.880 milljónir á bilinu 3,49-3,68%.
Í flokki RVK 48 I tók borgin tilboðum að nafnvirði 1.80 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,50%. Heildartilboð í umræddum flokki voru samtals 2.680 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 3,44-3,53%.
Um er að ræða þriðja skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar í ár en fallið var frá síðustu tveimur fyrirhuguðu útboðum á útgáfuáætlun borgarinnar.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 er áformað að taka lán fyrir allt að 21 milljarð króna að markaðsvirði. Borgin hefur nú selt skuldabréf fyrir um 7,3 milljarða og dregið a.m.k. 3 milljarða króna á langtíma lánalínu hjá Íslandsbanka.