Boris Johnson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, hefur skrifað undir samning við útgáfufélagið HarperCollins um að gefa út ævisögu hans. Bókin mun ná yfir stormasaman tíma Boris sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins.

Útgáfufélagið sagði að ævisagan væri ekki kominn með titil eða fyrirhugaðan útgáfudag, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Boris, sem var borgarstjóri London árin 2008-2016, tók stóran þátt í Brexit-herferðinni sem endaði með því að Bretland yfirgaf Evrópusambandið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016. Hann var utanríkisráðherra Bretlands um tíma en tók við af Theresu May sem forsætisráðherra árið 2018. Sem leiðtogi Íhaldsflokksins skilaði Boris stórsigri í þingkosningunum árið 2019. Bresku ríkisstjórninni gekk hins vegar illa að glíma við Covid-faraldurinn.

Búist er við að bókin muni fjalla ítarlega um röð hneykslismála innan ríkisstjórnarinnar á þessu tímabili, sem sneru m.a. um drykkjusamkvæmi meðal starfsfólks forsætisráðuneytisins á Downingstræti á meðan útgöngubann stóð yfir. Boris sagði af sér embætti forsætisráðherra í september síðastliðnum.

Boris hefur skrifað nokkrar bækur á sínum ferli, þar á meðal ævisögu um Winston Churchill sem seldist í yfir 300 þúsund eintökum. Hann er með samning við útgáfufélagið Hodder & Stoughton frá árinu 2015 um að skrifa bók um Shakespeare sem ber titilinn „The Riddle of Genius“ en hún hefur ekki enn verið gefin út.