Boris Johnson, sem sagði af sér embætti forsætisráðherra Bretlands í sumar, er nú í viðræðum við nokkrar af helstu umboðsskrifstofum Hollywood varðandi ræðustörf, samkvæmt heimildum Sky News.
Ekki er óalgengt að stjórnmálamenn snúi sér að fyrirlestrastörfum eftir að hafa gengt háttsettum embættum. Talið er að Boris gæti þénað milljónir og jafnvel tugi milljóna punda ef hann heldur sér við þennan nýja starfsvettvang næstu árin.
Boris er sagður hafa átt í viðræðum við nokkrar umboðsskrifstofur, þar á meðal Endeavor og dótturfélag þess, Harry Walker Agency (HWA). Honum er ekki heimilt að skrifa undir samning fyrr en í desember, samkvæmt reglum breska þingsins.
HWA er meðal stærstu umboðsskrifstofa heims sem sérhæfa sig í fyrirlesurum. Hún er með fyrrum forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton og Barack Obama, ásamt Hillary Rodham Clinton, leikkonuna Whoopi Goldberg og tennisstjörnuna Serena Williams á sínum snærum.
Heimildir Sky News herma að Boris ætli ekki að fást við sjónvarpsstörf í náinni framtíð. Hann hyggist þó taka að sér nokkur ræðustörf á komandi mánuðum.