Í fréttatilkynningu frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar kemur fram að meðalaldur barna við innskráningu á leikskóla í borginni í upphafi árs hafi verið 19,5 mánuðir. Þegar borgarreknir og sjálfstætt starfandi leikskólar eru skoðaðir saman hafi meðalaldur barna verið 18,4 mánuðir við upphaf leikskólagöngu í Reykjavík í upphafi árs.

"Átak í innivistarmálum og flókin staða í ráðningamálum hefur leitt til þess að meðalaldur barna sem fá pláss í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur ekki lækkað eins mikið og vonir stóðu til um, þrátt fyrir að á síðasta ári hafi verið opnaðir fjórir nýir leikskólar og aðrir fimm skólar stækkaðir."

Á fundi Borgarráðs í ágúst síðastliðnum var samþykkt aðgerðaáætlun til að bregðast tafarlaust við stöðunni í leikskólamálum. Það var í kjölfar þess að borgin hafði lofað því að öll börn tólf mánaða og eldri í Reykjavíkurborg yrðu komin með leikskólapláss síðastliðið haust.

Meðalaldur barna við inntöku í leikskóla

Tegund leikskóla Meðalaldur Fjöldi barna
Borgarrekinn 19,5 740
Sjálfstætt starfandi 16,3 394
Saman 18,4 1134
Heimild: Reykjavíkurborg

Í fréttatilkynningunni, sem send var í dag, sagði einnig að metnaðarfull áform um að lækka aldur barna við inntöku á leikskóla á síðasta ári hafi ekki gengið eftir þrátt fyrir að framkvæmdir hafi gengið vel.

Viðskiptablaðið sagði síðasta sumar frá minnisblaði sem unnið var af skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði um framvindu áætlunar um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík þar sem fram kom að upp hafi komið erfið húsnæðismál með reglulegu millibili sem hafi haft áhrif á fjölda leikskólaplássa. Þá kom einnig fram í greinargerð með tillögum stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, sem lagðar voru fyrir borgarráð í mars í fyrra, að spár geri ekki ráð fyrir meiri háttar viðhaldi á húsnæði og þeirri fækkun leikskólaplássa sem það geti hafi í för með sér.

Það eru spárnar sem borgarstjórnarmeirihlutinn byggði loforð sín á í aðdraganda kosninga um að öll börn tólf mánaða og eldri í borginni yrðu komin með leikskólapláss síðastliðið haust.