Stjórnvöld í Botsvana stefna á að auka hlut ríkisins í demantaframleiðandanum De Beers en breska námufyrirtækið Anglo American Plc hyggst losa um eignarhlut sinn í demantaframleiðandanum.
Námufyrirtækið hefur verið hluthafi í De Beers í nærri heila öld. BHP Group, stærsta námufyrirtæki heims, hefur lýst yfir áhuga á að taka yfir rekstur Anglo. Til að koma í veg fyrir að þau áform verði að veruleika hyggst Anglo selja eða aðskilja hluti í De Beers frá félaginu en Anglo á 85% hlut í demantaframleiðandanum.
Eftirstandandi 15% eru í eigu ríkissjóðs Botsvana en stærstu demantanámur félagsins eru staðsettar þar í landi.
Mokgweetsi Masisi, forseti Botsvana, hefur lýst því yfir opinberlega að landið muni stækka hlut sinn í De Beers og að stjórnvöld muni einnig vera í aðalhlutverki við að finna kaupanda af hlut Anglo í De Beers.