Olíurisinn BP segist hafa fundið olíu við Mexíkóflóa í syðsta hluta bandarískrar lögsögu í um 190 km fjarlægð frá Lousiana. Á vef WSJ segir að uppgötvunin komi samhliða miklu vaxtartímabili hjá fyrirtækinu sem er nú í miklu endurskipulagningarferli.

BP sagði í dag að fyrstu gögnin sýndu fram á hágæðabirgðir á svæðinu ásamt miklu hugsanlegu magni af kolvetni en fyrirtækið hefur þegar borað á meira en 7260 metra dýpi.

Fyrirtækið áætlar að bora um 40 holur á næstu þremur árum og af þeim verða 10 til 15 holur fullkláraðar á þessu ári. Þar að auki hyggst BP auka áherslu á kolvetnisframleiðslu ásamt því að auka olíuframleiðslu úr 2,3 milljónum tunna á dag í 2,5 milljónir tunna fyrir 2035.

Nýja svæðið er einnig töluvert lengra frá strendum Bandaríkjanna en önnur svæði við Mexíkóflóa þar sem BP hefur verið með olíustarfsemi.

Borpallurinn við Macondo-svæðið, þar sem borpallurinn Deepwater Horizon sprakk árið 2010 og varð 11 starfsmönnum að bana, var í um 66 km fjarlægð frá Lousiana. Slysið reyndist versti olíuleki mannkynssögunnar en hann olli því að 4,9 milljónir tonna af olíu láku út í haf.