Olíurisinn BP segir að fyrirtækið muni segja upp þúsundum starfsmanna í hagræðingarskyni. Á vef WSJ segir að BP muni fækka 4.700 starfsmönnum og um þrjú þúsund verktökum.

Starfsmennirnir fengu tilkynninguna í dag frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Murray Auchincloss.

Niðurskurðurinn er liður í margra ára áætlun framkvæmdastjórans um að einfalda viðskiptaskipulag BP. Rúmlega 90 þúsund manns starfa hjá fyrirtækinu um allan heim og nemur því fækkunin um 5% af vinnuafli BP.

Auchincloss setti einnig það markmið í apríl í fyrra að minnka kostnað BP um tvo milljarða dala fyrir árslok 2026 og í október tilkynnti félagið að 500 milljóna dala sparnaðarmarkmiði þess yrði náð fyrir árið 2025.