Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, eigendur Ikea á Íslandi og á Eystrasaltslöndunum, hafa samþykkt að selja rekstur Ikea í Eistlandi, Lettlandi og Litháen til Inter Ikea Group. Bræðurnir munu áfram eiga og reka Ikea á Íslandi.

Gert er frá fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok að gefnu samþykki eftirlitsaðila.

Bræðurnir opnuðu fyrstu Ikea verslunina á Eystrasaltslöndunum árið 2013 í Vilníus í Litháen. Í kjölfarið opnuðu þeir verslun í Lettlandi árið 2018 og fyrstu verslunina í fullri stærð í Eistlandi árið 2021.

Í dag rekur Eignarhaldsfélagið Hof, sem er í eigu Sigurðar Gísla og Jóns, þrjár stórar Ikea verslanir og fimm þjónustumiðstöðvar í Eystrasaltsríkjunum auk vefverslana.

Fjárfesting samstæðunnar í uppbyggingu verslananna undanfarinn áratug nemur yfir tuttugu milljörðum, líkt og kom fram í nýlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins.

„Eftir 12 vel heppnuð ár erum við hæstánægð að afhenda reksturinn til langtíma samstarfsaðila okkar, Inter Ikea Systems B.V. Það eru spennandi tímar fram undan með fjölda tækifæri til að efla og styrkja Ikea vörumerkið í Eystrasaltsríkjunum,“ segir Sigurður Gísli í tilkynningu á vef Inter Ikea Group þar sem greint er frá viðskiptunum.

Um 57% eignarhlutur Eignarhaldsfélagsins Hofs í dótturfélagi sem heldur utan um reksturinn í Eystrasaltslöndunum, FE Corporation B.V., var bókfærður á 7,5 milljarða króna í árslok 2023, í ársreikningi samstæðunnar.

Sigurður Gísli og Jón eru synir Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa, sem opnaði fyrstu Ikea verslunina hér á landi á níunda áratugnum.

Fram kemur í tilkynningu Inter Ikea Group að 1.450 manns starfi fyrir Ikea á Eystrasaltslöndunum. Viðskiptavinir Ikea verslananna á Eystrasaltinu voru 6,6 milljónir árið 2023.

Inter Ikea Group tilheyrir Inter Ikea Holding samstæðunni sem á m.a. Inter Ikea Systems, eiganda hugverka og vörumerkisins Ikea.

Í tilkynningunni kemur fram að kaupandinn sé fyrir með rekstur á Eystrasaltslöndunum sem felst m.a. í vörustjórnun og framleiðslu. Auk þess eigi kaupaninn Ikea verslun í Delft í Hollandi.