Breski auðkýfingurinn Richard Branson segir að staða Bretlands sé mjög sterk og að breski markaðurinn sé einn af þeim fáu í heiminum sem sýni enn fram á stöðugleika. Hann sagði þetta í samtali við BBC þar sem meðal annars var rætt um núverandi tollastríð.
Branson, sem er nú 74 ára gamall, stofnaði Virgin Records í London fyrir meira en 50 árum síðan og telur að Bretland sé enn frábær staður til að stofna fyrirtæki.
„Ég held enn að þetta sé góður tími til að byrja upp á nýtt í Bretlandi og ef við í viðskiptalífinu getum aflað nægra tekna þá mun það þýða skattalækkanir fyrir almenning.“
Hann er jafnframt mjög gagnrýninn á tollaákvarðanir Donalds Trumps og telur að forsetinn hafi nýlega fengið óþægilegt áfall þegar það leit út eins og heimurinn væri allt í einu að hrynja.
„Forsetinn hélt að hann gæti komist upp með fáránlega tolla en þurfti svo að bakka. Vonandi hefur hann lært lexíuna sína og að skynsamlegra fyrirkomulagi verði komið á, en maður veit aldrei hvað gerist.“