Hinn sögufrægi veitingastaður Askur á Suðurlandsbraut hefur skipt um eigendur.
Það eru matreiðslumeistararnir Viktor Örn Andrésson og Hinrik Örn Lárusson hjá Sælkerabúðinni og Lux veitingum sem leiða nýja eigendahópinn. Baldur Guðbjörnsson, matreiðslumeistari, mun stýra daglegum rekstri veitingastaðarins ásamt Bjarna Stefáni Gunnarssyni, veitingamanni og eiganda Saffran og Pítunnar.
„Það er okkur fyrst og fremst heiður að fá að taka við stýrinu á þessum hornsteini í íslenskri veitingahúsamenningu. Askur er eldri en við allir í hópnum og við erum þakklátir fyrir að fá að taka Ask áfram inn í framtíðina,” segir Hinrik Örn Lárusson.
Veitingastaðurinn Askur er mörgum Íslendingum kunnugur en eftir tvö ár verður staðurinn orðinn 60 ára, þar af heilum 40 árum á sama stað á Suðurlandsbrautinni. Í tilkynningu segir jafnframt að viðskiptavinir geti haldið áfram að stóla á hádegishlaðborðin og steikarhlaðborðin á sunnudögum.
„Þegar maður fær svona gimstein í hendurnar er mikilvægt að halda í hin gömlu og rótgrónu gildi ásamt því að bæta við nýjum og ferskum áherslum. Við ætlum að blása í gamlar glæður og endurvekja veisluþjónustu Asks, sem hann var þekktur fyrir á árum áður,” bætir Hinrik við.