Brauð og co. ehf. hagnaðist um 34 milljónir króna í fyrra, samanborið við 14 milljónir árið áður. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður upp á 10 milljónir króna vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Velta félagsins, sem rekur átta verslanir á höfuðborgarsvæðinu, jókst um 15,5% milli ára og nam 1,4 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst úr 82 milljónum í 108 milljónir milli ára. Ársverk voru 45 samanborið við 40 árið áður.

Eignir Brauðs & co. námu 238 milljónum í árslok 2024 og eigið fé var um 96 milljónir.

Skel fjárfestingarfélag er stærsti hluthafi Brauðs & co. með 35% hlut. Þar á eftir kemur Lúks ehf., í eigu Þóris Snæs Sigurjónssonar, með 31% hlut. RE22 ehf., félag Jóns Björnssonar, á 15% hlut og Noruz ehf., félag tengt Ólafi Steini Guðmundssyni, á 10% hlut.