Markaðsvirði bóluefnaframleiðenda lækkaði um meira en 10 milljarða dala í gær eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að „faraldrinum væri lokið“. Financial Times greinir frá.

Hlutabréf Moderna, BioNTech og Novavax lækkuðu öll um um 6%-9% í gær og hafa fallið enn meira í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Gengi Pfizer hefur lækkað um 1,7% á sama tíma en bandaríska lyfjafyrirtækið hefur upp á breiðara vöruúrval að bjóða. Til samanburðar hækkaði S&P 500 vísitalan um 0,7% í gær.

Joe Biden sagði í viðtali við 60 Minutes, sem var birt á sunnudaginn, að Covid-faraldrinum sé lokið. „Við glímum enn við vandamál tengd Covid og erum enn að vinna mikið í þeim … en faraldrinum er lokið.“

Greiningaraðilar segja að meðal skýringa fyrir lækkuninni sé áhyggjur yfir eftirspurn eftir Covid-bóluefnum vegna minni áhuga almennings á faraldrinum og skilaboðum stjórnmálaleiðtoga um að krísuástandi faraldursins sé að líða undir lok.

Greinandi hjá BMO Capital markets sagði við FT að lækkun hlutabréfaverðs hjá bóluefnaframleiðendum megi sennilega rekja til ummæla Biden, áhyggja yfir hversu margir fara í örvunarbólusetningu sem og ástandinu í hagkerfinu.