Ein stærsta kerfisbilun allra tíma hafði víðtæk áhrif á fyrirtæki um allan heim í morgun og olli m.a. truflunum á starfsemi fjölda flugfélaga, banka og fjölmiðlafyrirtækja.

Kerfisbilunin hefur verið rakin til gallaðrar uppfærslu hjá netöryggisfyrirtækinu CrowdStrike sem olli vandamálum á kerfum Microsoft.

Bandaríska netöryggisfyrirtækið CrowdStrike, sem er með höfuðstöðvar í Austin, Texas, hefur lækkað um ríflega 15% í viðskiptum fyrir opnun markaða. Markaðsvirði félagsins nam 83,5 milljörðum dala við lokun markaða í gær og því gæti farið svo að virði félagsins lækki um meira en 10 milljarða dala í viðskiptum dagsins.

Hlutabréfaverð Microsoft hefur sömuleiðis lækkað um hátt í 2% í formarkaðsviðskiptum.