Icelandair hefur ákveðið að hætta rekstri breiðþotna til lengri tíma og verður þar með ekki með B767 vélar í rekstri eftir haustið 2029. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins til Kauphallarinnar í dag.

Í tilkynningunni segir að ákvörðunin sé tilkomin eftir ítarlega endurskoðun á stefnu félagsins þegar kemur að breiðþotum en þess í stað verður áhersla lögð á að reka hagkvæman flota „narrow-body“ flugvéla.

„Þessi ákvörðun er í takt við stefnu félagsins og lykilsamkeppnisforskot Icelandair – að geta flogið hagkvæmum „narrow-body“ flugvélum lengra í austur og vestur en þau flugfélög sem félagið er í samkeppni við, og stuðlar jafnframt að kostnaðarhagkvæmni,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Icelandair munu nýjar langdrægar „narrow-body“ vélar opna á ný tækifæri fyrir leiðarkerfi Icelandair og styrkja enn frekar framtíðarþróun Íslands sem ferðamannalands og tengimiðstöðvar í flugi milli heimsálfa.

Icelandair tapaði 44 milljónum dala, eða sem nemur 6,1 milljarði króna, á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 59,4 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur Icelandair jukust um 11% og námu 39,6 milljörðum króna.