Snæfríður Jónsdóttir hóf nýverið störf sem sérfræðingur í stafrænni þróun og markaðsmálum hjá nýsköpunarfyrirtækinu Empower. Þar mun hún taka þátt í mótun og framkvæmd stafrænnar markaðsstefnu fyrirtækisins ásamt því að sinna fjölbreyttum verkefnum á sviði efnissköpunar.

„Ég fæ að starfa með frábærum hópi af hæfileikaríku fólki og við stefnum á að setja fyrstu heildstæðu útgáfuna af hugbúnaðarlausninni okkar, Empower Now, á alþjóðamarkað haustið 2023,“ segir Snæfríður.

Snæfríður hefur lengi verið heilluð af jafnréttismálum og dreymt um að starfa í tengslum við þau. Að auki hefur hún mikinn áhuga á markaðsmálum, stjórnenda- og leiðtogafræðum.

„Þegar ég var í viðskiptafræðinni óraði mig aldrei fyrir að ég gæti fundið starf sem sameinaði öll þessi áhugamál. Það má því segja að draumurinn sé að verða að veruleika í nýja starfinu, þar sem ég fæ að starfa við stafræna þróun og markaðsmál hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í jafnrétti og fjölbreytileika.“

Snæfríður býr í Vesturbænum ásamt unnusta sínum, Gísla Vilhjálmi Konráðssyni sem starfar sem sjúkraþjálfari á Landspítalanum, en þau eiga saman dótturina Hrafnhildi Eyju sem er 2 ára. Snæfríður er mikil áhugakona um hreyfingu og stundar lyftingar með vinkonu sinni nokkrum sinnum í viku ásamt því að vera farin að prófa sig áfram í golfi.

„Ég keypti mér nýlega golfsett og er aðeins byrjuð að fikta við það – aðallega fyrir komandi golferðir erlendis. Svo hef ég líka mikinn áhuga á allskonar list, finnst gaman að fara á tónleika eða kíkja á listsýningar.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 16. nóvember.