Bresk fyrir­tæki eru nú að kaupa eigin hluta­bréf á meiri hraða en fyrir­tæki í Bandaríkjunum.

Sam­kvæmt Financial Times eru bresk fyrir­tæki þar með að taka upp iðju sem hefur verið gagn­rýnd fyrir að draga úr fjár­festingum og nýsköpun en þessi þróun hefur einnig sætt gagn­rýni stjórn­mála­manna beggja vegna At­lants­hafsins.

Fyrir­tæki í FTSE 100 skuld­bundu sig til að kaupa eigin hluta­bréf fyrir að minnsta kosti 56,9 milljarða punda á síðasta ári, sam­kvæmt gögnum frá fjár­festingar­vett­vanginum AJ Bell.

Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem slíkar skuld­bindingar fara yfir 50 milljarða punda.

Sam­kvæmt út­reikningum sjóðastýringar­fyrir­tækisins Schroders drógu 44 pró­sent stærstu fyrir­tækjanna í Bret­landi úr hluta­fjár­eign sinni um að minnsta kosti 1 pró­sent á árinu 2024, saman­borið við 39 pró­sent í Bandaríkjunum.

Muna þetta vera í fyrsta sinn sem Bretar fara fram úr Bandaríkjunum í þessu sam­hengi.

„Við virðumst vera komin á fullt í hluta­bréfa­kaupum,“ segir Adrian Gos­den, sjóðs­stjóri hjá Jupiter Asset Mana­gement í London, í sam­tali við FT.

Þessi þróun markar breytta nálgun breskra fyrir­tækja, sem hafa sögu­lega lagt áherslu á arð­greiðslur til að skila fjár­magni til hlut­hafa en það hefur gert breskan hluta­bréfa­markað aðlaðandi fyrir fjár­festa.

Sem dæmi um þessa þróun má nefna að olíu­fyrir­tækið Shell skuld­batt sig í lok október til að kaupa hluta­bréf fyrir 3,5 milljarða dollara til viðbótar, sem gerir heildar­upp­hæðina á síðasta ári yfir 10 milljarða punda.

Í júlí kynnti HSBC áform um 3 milljarða dollara kaup á eigin hluta­bréfum og í desember bætti Centri­ca, móðurfélag British Gas, 300 milljónum punda við kaupáætlun sína, sem nemur alls 1,5 milljörðum punda.

Í hluta­bréfa­kaupum kaupir fyrir­tæki eigin hluta­bréf á markaði og annaðhvort ógildir þau eða geymir í sjóði (e. treasury). Með ógildingu þeirra fækkar út­gefnum hluta­bréfum, sem eykur hagnað á hlut.

Fram­kvæmda­stjórar grípa oft til hluta­bréfa­kaupa ef þeir telja þau ekki vera fýsi­legar fjár­festingar eða til að gefa til kynna að hluta­bréf fyrir­tækisins séu van­metin. Auk þess eru hluta­bréfa­kaup skatta­lega hag­kvæmari en arð­greiðslur í Bret­landi.

Þrátt fyrir vaxandi vinsældir hluta­bréfa­kaupa hefur þessi að­ferð sætt gagn­rýni. Sumir fjár­festar telja að kaup á eigin hluta­bréfum skapi aðeins skammtíma­aukningu í hagnaði á hlut, fremur en varan­legan ávinning fyrir hlut­hafa eða bættan rekstur fyrir­tækisins.

Ger­vais Willi­ams, yfir­maður hluta­bréfa­fjár­festinga hjá Premi­er Miton Investors, segir að þótt hann skilji ákvörðun fyrir­tækja um hluta­bréfa­kaup þegar verðmæti þeirra væri lágt, hefur þetta áhrif á sam­félagið.

„Þetta þýðir að þau fjár­festa minna í hæfni starfs­fólks og búnaði,“ segir Willi­ams.

Gæti haft áhrif á skatta­stefnu

Í Bandaríkjunum hefur ríkis­stjórn Joe Bidens lagt til að fjór­falda skatt á hluta­bréfa­kaup sem var fyrst inn­leiddur árið 2022. Mark­miðið er að stór­fyrir­tæki greiði „sann­gjarnan skerf“.

Í Bret­landi hafa Frjáls­lyndir demókratar kallað eftir 4 pró­senta skatti á hluta­bréfa­kaup og bent á að fyrir­tæki ættu frekar að nýta fjár­magn í hæfniþróun, búnað eða græna tækni.

Aðrir telja þó að lítil gögn styðji þá hug­mynd að fjár­magn sem fer í hluta­bréfa­kaup verði endi­lega nýtt til nýsköpunar eða fjár­festinga ef þessi kaup væru tak­mörkuð.