Bresk fyrirtæki eru nú að kaupa eigin hlutabréf á meiri hraða en fyrirtæki í Bandaríkjunum.
Samkvæmt Financial Times eru bresk fyrirtæki þar með að taka upp iðju sem hefur verið gagnrýnd fyrir að draga úr fjárfestingum og nýsköpun en þessi þróun hefur einnig sætt gagnrýni stjórnmálamanna beggja vegna Atlantshafsins.
Fyrirtæki í FTSE 100 skuldbundu sig til að kaupa eigin hlutabréf fyrir að minnsta kosti 56,9 milljarða punda á síðasta ári, samkvæmt gögnum frá fjárfestingarvettvanginum AJ Bell.
Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem slíkar skuldbindingar fara yfir 50 milljarða punda.
Samkvæmt útreikningum sjóðastýringarfyrirtækisins Schroders drógu 44 prósent stærstu fyrirtækjanna í Bretlandi úr hlutafjáreign sinni um að minnsta kosti 1 prósent á árinu 2024, samanborið við 39 prósent í Bandaríkjunum.
Muna þetta vera í fyrsta sinn sem Bretar fara fram úr Bandaríkjunum í þessu samhengi.
„Við virðumst vera komin á fullt í hlutabréfakaupum,“ segir Adrian Gosden, sjóðsstjóri hjá Jupiter Asset Management í London, í samtali við FT.
Þessi þróun markar breytta nálgun breskra fyrirtækja, sem hafa sögulega lagt áherslu á arðgreiðslur til að skila fjármagni til hluthafa en það hefur gert breskan hlutabréfamarkað aðlaðandi fyrir fjárfesta.
Sem dæmi um þessa þróun má nefna að olíufyrirtækið Shell skuldbatt sig í lok október til að kaupa hlutabréf fyrir 3,5 milljarða dollara til viðbótar, sem gerir heildarupphæðina á síðasta ári yfir 10 milljarða punda.
Í júlí kynnti HSBC áform um 3 milljarða dollara kaup á eigin hlutabréfum og í desember bætti Centrica, móðurfélag British Gas, 300 milljónum punda við kaupáætlun sína, sem nemur alls 1,5 milljörðum punda.
Í hlutabréfakaupum kaupir fyrirtæki eigin hlutabréf á markaði og annaðhvort ógildir þau eða geymir í sjóði (e. treasury). Með ógildingu þeirra fækkar útgefnum hlutabréfum, sem eykur hagnað á hlut.
Framkvæmdastjórar grípa oft til hlutabréfakaupa ef þeir telja þau ekki vera fýsilegar fjárfestingar eða til að gefa til kynna að hlutabréf fyrirtækisins séu vanmetin. Auk þess eru hlutabréfakaup skattalega hagkvæmari en arðgreiðslur í Bretlandi.
Þrátt fyrir vaxandi vinsældir hlutabréfakaupa hefur þessi aðferð sætt gagnrýni. Sumir fjárfestar telja að kaup á eigin hlutabréfum skapi aðeins skammtímaaukningu í hagnaði á hlut, fremur en varanlegan ávinning fyrir hluthafa eða bættan rekstur fyrirtækisins.
Gervais Williams, yfirmaður hlutabréfafjárfestinga hjá Premier Miton Investors, segir að þótt hann skilji ákvörðun fyrirtækja um hlutabréfakaup þegar verðmæti þeirra væri lágt, hefur þetta áhrif á samfélagið.
„Þetta þýðir að þau fjárfesta minna í hæfni starfsfólks og búnaði,“ segir Williams.
Gæti haft áhrif á skattastefnu
Í Bandaríkjunum hefur ríkisstjórn Joe Bidens lagt til að fjórfalda skatt á hlutabréfakaup sem var fyrst innleiddur árið 2022. Markmiðið er að stórfyrirtæki greiði „sanngjarnan skerf“.
Í Bretlandi hafa Frjálslyndir demókratar kallað eftir 4 prósenta skatti á hlutabréfakaup og bent á að fyrirtæki ættu frekar að nýta fjármagn í hæfniþróun, búnað eða græna tækni.
Aðrir telja þó að lítil gögn styðji þá hugmynd að fjármagn sem fer í hlutabréfakaup verði endilega nýtt til nýsköpunar eða fjárfestinga ef þessi kaup væru takmörkuð.