Ríkisstjórn Bretlands hefur samþykkt kaup tékkneska auðkýfingsins Daniel Kretinsky á bresku póstþjónustunni Royal Mail.

Félag hans, EP Group, mun kaupa eftirstandandi hlut í móðurfélagi breska póstsins, International Distribution Services (IDS), fyrir 3,6 milljarða punda, eða um 630 milljarða króna, en EP átti fyrir 27,6% hlut í IDS. Viðskiptin meta póstfélagið á 5,3 milljarða punda.

Kretisnky náði samkomulagi við breska ríkið í maí en kaupin hafa síðan þá verið til skoðunar hjá þjóðaröryggisráði þar sem póstþjónustan flokkast undir mikilvæga innviði þjóðarinnar. Ráðið hefur nú gefið grænt ljós. Í umfjöllun SkyNews segir að Samkeppniseftirlit Bretlands gæti hins vegar ákveðið að taka málið til meðferðar.

Samkomulagið felur í sér að ríkissjóður Bretlands mun halda eftir „gullnu hlutabréfi“ sem mun tryggja að hann þurfi að samþykkja allar helstu ákvarðanir sem tengjast eignarhaldi, staðsetningu höfuðstöðva og skattalegu heimilisfesti póstþjónustunnar.

Þá hefur BP Group gengist við skuldbindingum um alþjónustu (e. Universal Service Obligation, USO), sem felur í dag í sér að dreifa bréfum sex daga vikunnar, frá mánudegi til laugardags, og pökkum frá mánudegi til föstudags.

Samkomulagið felur einnig í sér að starfsmenn póstþjónustunnar fá 10% hlutdeild í arðgreiðslum póstsins.

Daniel Kretinsky sat í 33. sæti á nýjasta auðmannalista The Sunday Times en auðæfi hans voru metin á 6 milljarða punda. Meðal fjárfestinga Kretisnky er tæplega 10% eignarhlutur í bresku verslanakeðjunni Sainsbury‘s og 27% hlutur í enska knattspyrnufélaginu West Ham United.