Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi greiningarfyrirtækisins Akkurs, ræddi í Viðskiptablaði vikunnar um líklegar sviðsmyndir um samþjöppun á íslenska bankamarkaðnum. Ein þeirra er að Arion og Kvika sameinist.

Alexander telur töluverð tækifæri fyrir Arion að taka yfir bresku starfsemi Kviku og fjármagna útlánastarfsemi Ortus, sem Kvika keypti árið 2022, á betri kjörum. Í þeim efnum verði athyglisvert að fylgjast með þeim kjörum sem Kviku býðst í áformaðri skuldabréfaútgáfu í evrum.

„Breska starfsemi Kviku hefur að mér finnst verið mikið vanmetin og talsverðs misskilnings gætt um hana. Þetta er risastór markaður með aragrúa af aðilum eins og Ortus,“ segir Alexander.

„Arion banki gæti alltaf fjármagnað Ortus á betri kjörum heldur en Kvika en spurningin er bara hversu mikið betri. Innan stærri samstæðu er hægt að vaxa hraðar og veita fleiri og stærri lán. Þú ert alltaf takmarkaður af stærð samstæðunnar því þetta má ekki verða of stór hluti af lánabókinni.“

Samlegðin mest hjá Arion og Íslandsbanka

Af þeim þremur samrunum sem hann telur líklegasta á markaðnum liggja mestu samlegðartækifærin í samruna Arion og Íslandsbanka. Akkur áætlaði fyrr í ár að heildarsamlegð á kostnaðarhlið við samruna bankanna gæti legið á bilinu 13-24 milljörðum ári, eftir því hversu mikið stöðugildum fækkar og annar kostnaður dregst saman.

Fljótt á litið telur Alexander að möguleg kostnaðarsamlegð í tilfellum Arion og Kviku annars vegar og Íslandsbanka og Skaga hins vegar yrðu af svipaðri stærðargráðu. Í báðum tilfellum gæti kostnaðarsamlegð verið á bilinu 3,5-6 milljarðar króna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.