Fjöldi kráa í Englandi og Wales voru 39.970 talsins í júní en þeim hefur fækkað um sjö þúsund frá árinu 2012, samkvæmt úttekt ráðgjafarfyrirtækisins Altus Group. Aldrei hafa færri krár verið starfræktar í Bretlandi frá því að mælingar hófust árið 2005. BBC greinir frá.
Árið 2019 gáfu tölur frá Hagstofu Bretlands til kynna að krám hefði fjölgað í fyrsta sinn í áratug. Þeim fækkaði þó aftur á síðustu tveimur árum eftir strangar samkomutakmarkanir í kórónuveirufaraldrinum. Þá hefur aðfangaverð og orkukostnaður einnig hækkað töluvert á síðustu misserum.
Sjá einnig: Íslendingar veðja á breskar knæpur
Breska ríkisstjórnin segist hafa lækkað skatta til að létta undir rekstrarstöðu kráa. Hagsmunasamtök kalla þó eftir að stjórnvöld geri meira til að styðja við knæpur.
Samkvæmt Altus fækkaði krám í Englandi og Wales um 400 á síðasta ári og um 200 lögðu upp laupana á fyrstu sex mánuðum 2022.