Seðlabanki Englands biður nú íbúa Bretlands um að koma með hugmyndir um hönnun á peningaseðlum þjóðarinnar sem koma til með að verða endurhannaðir í fyrsta sinn í meira en 50 ár.
Á vef BBC segir að seðlar sem þekktir einstaklingar hafa prýtt, eins og Winston Churchill, gætu verið á leiðinni út.
Almenningur í Bretlandi hefur verið beðinn um að senda inn álit sitt á nýjum þemum sem tengjast náttúru, nýsköpun eða lykilatburðum í breskri sögu. Breskir fuglar, brýr og jafnvel vinsælir breskir réttir gætu því næst birst á 5, 10, 20 eða 50 punda seðlum.
Síðan 1960 hefur æðsti meðlimur konungsfjölskyldunnar birst á öllum seðlum en um áttunda áratuginn var byrjað að bæta við öðrum frægum einstaklingum, eins og William Shakespeare, á bakhlið seðlanna.
„Seðlar eru meira en bara greiðslumáti. Þeir eru táknræn mynd fyrir sameiginlega þjóðarvitund okkar og tækifæri til að fagna Bretlandi,“ segir Victoria Cleland, aðalgjaldkeri enska seðlabankans.