David Lammy, utanríkisráðherra Bretlands, er mættur til Indlands þar sem hann mun funda með ráðherrum og einstaklingum innan viðskiptalífsins. Heimsóknin er tilraun til að efla viðskiptasamband Bretlands við Indland.

Ráðherrann hefur sagt að Indland sé ómissandi samstarfsaðili þegar kemur að hagvexti og áskorunum tengdum loftslagsbreytingum.

David Lammy, utanríkisráðherra Bretlands, er mættur til Indlands þar sem hann mun funda með ráðherrum og einstaklingum innan viðskiptalífsins. Heimsóknin er tilraun til að efla viðskiptasamband Bretlands við Indland.

Ráðherrann hefur sagt að Indland sé ómissandi samstarfsaðili þegar kemur að hagvexti og áskorunum tengdum loftslagsbreytingum.

Hagkerfi Indlands verður bráðlega það þriðja stærsta í heiminum og virðist ný ríkisstjórn Verkamannaflokksins stefna á að tryggja fríverslunarsamning milli þjóðanna. Viðræður um slíkan samning hófust fyrir tveimur árum síðan en hafa gegnið hægt undanfarna mánuði, að því er segir í frétt BBC.

Viðskiptasamningur við Indland hefur lengi vel verið talinn eitt af stærstu markmiðum Breta í kjölfar Brexit en Indland er talið vera eitt af lykilhagkerfum 21. aldarinnar. Pólitískur óstöðugleiki í Bandaríkjunum og Evrópu virðist einnig vera að laða bresk stjórnvöld að frekara samstarfi við þjóðina.

Íslendingar þegar búnir að tryggja sér samning

Indverjar undirrituðu fríverslunarsamning við EFTA-ríkin í mars á þessu ári og var hann kynntur á fundi Íslensk-indverska viðskiptaráðsins og Félags atvinnurekenda í Skeifunni.

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sagði að samningurinn markaði tímamót að því leytinu til að hann innihéldi ákveðin fjárfestingarmarkmið sem höfðu ekki áður sést í slíkum fríverslunarsamningum.

„Ísland er nú komið með samkeppnisforskot til margra ára hjá landi sem er í stöðugum vexti. Á Indlandi eru til að mynda byggðir tveir menntaskólar á dag og 7-8 nýir flugvellir á hverju ári. Indland er líka fjölmennasta ríki veraldar og stærsta lýðræðisríki í heimi,“ sagði Martin á fundinum.