Breska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni slaka á þegar kemur að markmiðum og reglugerðum bílaframleiðenda til að hjálpa iðnaðinum í ljósi látlausra innflutningstolla frá Bandaríkjunum.

Bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla mun enn taka gildi árið 2030 en framleiðendur munu hins vegar fá meiri sveigjanleika þegar kemur að sölumarkmiðum og verða sektir eins lækkaðar.

Heidi Alexander samgönguráðherra Bretlands segir í samtali við BBC að breytingarnar muni ekki leysa öll þau vandamál sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir en ættu að hjálpa fyrirtækjum við að glíma við hækkandi tolla.

Donald Trump hefur lagt 25% toll á alla bíla sem fluttir eru inn til Bandaríkjanna en Bandaríkin eru mikilvægur markaður fyrir breska bílaiðnaðinn. Þar að auki hefur forsetinn lagt 10% toll á allar aðrar breskar vörur sem eru fluttar inn.

Samkvæmt núverandi reglum þurfa 28% allra nýrra bíla í Bretlandi sem seldir verða á þessu ári að vera rafbílar. Sú prósenta mun koma til með að hækka á hverju ári fram til ársins 2023. Framleiðendur munu hins vegar fá meira svigrúm til að bæta upp fyrir sölumarkmið á næsta ári ef markmiðinu er ekki náð árið á undan.

Þar að auki verður sektin sem lögð er á hvert selt ökutæki sem stenst ekki nýjustu losunarreglur lækkuð úr 15 þúsund pundum niður í 12 þúsund pund.