Breska ríkisstjórnin segir að þjóðin megi búast við skattahækkunum í nýjum fjárlögum sem kynnt verða í október. Tilkynningin kemur eftir nokkurra mánaða vangaveltur um afstöðu Verkamannaflokksins í skattamálum.
Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands staðfesti þetta í samtali við breska fjölmiðla þegar hún var spurð út í málið og sagði að forverar hennar hefðu skilið eftir 22 milljarða punda gat á ríkissjóði.
Flokkurinn ítrekaði á meðan á kosningabaráttu stóð að engar skattahækkanir yrðu lagðar á vinnandi fólk en Íhaldsflokkurinn hélt því fram að svo yrði. Reeves vildi ekki útiloka hækkun erfðaskatts og fjármagnstekjuskatts auk breytinga í lífeyriskerfinu.
„Ráðherrann hefur ekki skuldbundið sig til skattahækkana sem eru ekki þegar á stefnuskránni og hefur skuldbundið sig til að hækka ekki almannatryggingar, virðisaukaskatt eða tekjuskatt,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.