Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur hækkað meginvexti bankans úr 0,75% í 1% í von um að stemma stigu við vaxandi verðbólgu í landinu. Vextirnir hafa ekki verið hærri í þrettán ár.
Sex af níu nefndarmönnum peningastefnunefndar studdu 25 punkta vaxtahækkun, þar á meðal Andrew Bailey seðlabankastjóri. Þrír nefndarmenn vildu ganga enn lengra og hækka vextina um 50 punkta. Þetta er í fyrsta skipti sem Englandsbanki hækkar vexti í fjórum vaxtaákvörðunum í röð.
Sjá einnig: Englandsbanki hækkar vexti í 0,75%
Bankinn hefur nú hækkað vexti um 90 punkta á skömmum tíma. Þeir voru hækkaðir úr 0,1% í 0,25% í desember og síðan úr 0,25% í 0,5% í febrúar. Vextirnir fóru úr 0,5% í 0,75% í síðustu vaxtaákvörðun bankans í mars.
Verðbólga í Bretlandi mældist 7% í mars, en hún hefur ekki verið meiri í þrjátíu ár, síðan í marsmánuði árið 1992 þegar hún mældist 7,1%. Verðbólgan hefur mælst fyrir ofan 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka átta mánuði í röð.
Hækkandi alþjóðleg orkuverð hefur leitt verðbólguna og veldur 80% af vaxandi verðbólgunni, að því er kemur fram í grein hjá The Times .
Í greinargerð peningastefnunefndar er áætlað að verðbólgan muni halda áfram að vaxa hratt á komandi mánuðum. Þannig verði hún orðin 10,25% strax í haust, töluvert yfir verðbólgumarkmiði. Nefndin gaf til kynna að vextir myndu hækka meira á næstu mánuðum.
Vextir hækkaðir í Bandaríkjunum líka
Seðlabanki Bandaríkjanna hefur einnig tilkynnt að hann ætli að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig. Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gaf auk þess til kynna að vextir yrðu hækkaðir enn frekar á næstu misserum.
Sjá einnig: Vextir hækkaðir í Bandaríkjunum
Bankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta í marsmánuði síðastliðnum, en það var í fyrsta skipti sem vextir voru hækkaðir frá árinu 2018. Nýjasta vaxtahækkun bankans skilar vöxtum á bilinu 0,75-1,0%.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,5% í mars og hefur ekki mælst meiri í fjóra áratugi, eða frá því í desember 1981. Sérfræðingar telja að bankinn muni hækka vexti sjö sinnum árið 2022, sem mun skila vöxtum upp á 2,9% í byrjun árs 2023, að því er kemur fram í grein hjá The Guardian.