Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hækkaði stýrivexti í morgun um 0,75 prósentur, upp í 3,0%. Bankinn hefur ekki hækkað vexti meira í einu skrefi í þrjá áratugi. Hann gaf þó til kynna að vextir þyrftu ekki að hækka eins mikið í framtíðinni eins og markaðurinn hafði gert ráð fyrir.

Gengi sterlingspundsins gagnvart Bandaríkjadalnum féll um rúmlega 2% eftir tilkynninguna. Dollarinn hefur styrkst eftir að Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gaf til kynna í gær að von væri á meiri vaxtahækkunum en Wall Street átti von á. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti um 0,75 prósentur í gær.

Þá hækkaði seðlabanki Noregs stýrivexti um 0,25 prósentur í dag, upp í 2,5%. Hækkunin var í samræmi við eigin spá bankans en var þó undir væntingu greiningaraðila.

Norges Bank, sem hafði hækkað vexti um 0,5 prósentur við vaxtaákvarðanir fyrr í ár, sagðist vera líklegur til að hækka vexti enn meira í desember til að berjast gegn hárri verðbólgu sem mælist nú yfir 5% þar í landi.