Ríkisstjórnir Bretlands og Indlands hafa komist að samkomulagi um viðskiptasamning sem mun auðvelda breskum fyrirtækjum að flytja út viskí, bíla og aðrar vörur til Indlands. Á sama tíma verða skattar lækkaðir á fatnaði og skóm sem koma frá Indlandi.
Tilkynnt var um samkomulagið í dag en viðræður milli landanna tveggja hafa staðið yfir í þrjú ár. Samkvæmt BBC fer samningurinn þó ekki inn á innflytjendamál, þar með talið stöðu indverskra námsmanna í Bretlandi.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands sagði að samningurinn myndi efla hagvöxt og skila árangri fyrir bæði breskan almenning og fyrirtæki. Viðskipti Bretlands og Indlands námu 42,6 milljörðum punda í fyrra og er talið að samningurinn muni auka þau viðskipti um 25,5 milljarða punda til viðbótar á ári fyrir árið 2020.
Narendra Modi forsætisráðherra Indlands tók í sama streng og lýsti samningnum sem sögulegum áfanga sem væri bæði metnaðarfullur og gagnkvæmur.
Samkvæmt samningnum verða tollar lækkaðir á föt, skó, frosnar rækjur, skartgripi og gimsteina frá Indlandi. Á sama tíma verða tollar lækkaðir á breskt lambakjöt, súkkulaði og kex sem sent er til Indlands. Tollar á breskt gin og viskí verða helmingaðir niður í 75%.