Sala lausafjár í leigubásum verður undanþegin virðisaukaskatti að mestu leyti og skattleysismörk vegna sölu á raforku og jarðvarma verða hækkuð. Þetta er meðal þess sem felst í drögum að frumvarpsdrögum um breytingar á ýmsum skattalögum sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í gær.

Þótt þingið hafi ekki komið saman eftir kosningar og ný ríkisstjórn ekki verið mynduð er starfsfólk ráðuneyta á fullu að semja lagafrumvörp sem samþykkja á fyrir áramót. Umræddur bandormur er einn þeirra.

Í frumvarpsdrögunum er einnig að finna fyrirhugaða breytingu á refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna. Tilefnið er tveir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í vor en hvorugur þeirra hefur verið birtur á vefsíðu dómstólanna. Verður því reifun úr greinargerð frumvarpsins að duga.

Í málunum tveimur voru tveir einstaklingar ákærðir fyrir að vanframtelja fjármagnstekjur og en þar sem makar þeirra höfðu hærri tekjur bar að skattleggja þær hjá þeim. Samkvæmt niðurstöðu dómanna tveggja var ekki unnt að refsa sakborningunum fyrir brotið þar sem skattleggja átti fjárhæðina hjá mökum þeirra.

„Óeðlilegt þykir að það hjóna sem hefur hærri hreinar tekjur [...] beri eitt hlutlæga ábyrgð [...] á vanframtöldum fjármagnstekjum maka. Eðlilegt þykir að saknæmið og refsinæmið snúi að þeim sem tekjurnar tilheyra og telur þær ekki fram í sameiginlegu framtali,“ segir í greinargerðinni. Er því lagt til að bætt verði í tekjuskattslögin málslið þess efnis að refsiheimildin taki einnig til tekjuskatts af þeim tekjum sem tilheyra tekjulægri maka en telja ber fram hjá því tekjuhærra.

Afturvirk breyting til kyrrsetningar

Sem fyrr segir er lagt til að skattleysismörk vegna sölu á raforku eða jarðvarma hækki en þau hafa verið 500 þúsund krónur á ári og aðeins einn aðili fallið þar undir. Lagt er til að mörkin verði fjórfölduð en við það munu alls tólf falla þar undir.

Í drögunum er einnig að finna viðbrögð við aukningu á sölu lausafjár í umboðs- eða umsýslusölu, til að mynda gegnum básaleigu eða slíkt. Í þeim tilfellum eru eigendur varanna ekki virðisaukaskattskyldir og því beri ekki að leggja skattinn á. Að auki sé veltan í flestum tilfellum svo lítil að starfsemin sé ekki tekjuskattskyld.

„Aftur á móti telst afhending á vöru til umsýslu- eða umboðssölu til skattskyldrar veltu [...] þannig að umsýslu- eða umboðsmanni ber að leggja virðisaukaskatt á heildarandvirði hins selda,“ segir í drögunum. Í framkvæmd hefur virðisaukaskattur þó ekki verið lagður á svokallaða sölumiðlum. Í frumvarpinu er lagt til að festa skilyrði fyrir slíku í lög en rétt er að geta þess að önnur þjónusta miðlarans, til að mynda leiga á bás, er áfram virðisaukaskattskyld.

Þá er í drögunum að finna breytingar á álagningu útvarpsgjalds sem miðar að því að gera hana einfaldari og sneggri. Enn fremur er að finna breytingar á kyrrsetningarheimildum vegna brota á skattalögum sem eru í rannsókn. Samkvæmt gildandi rétti er aðeins unnt að kyrrsetja eignir ef líklegt er talið að mál endi í ákærumeðferð en lagt er til að hún verði útvíkkuð og nái einnig til sektarmála. Lagt er til að sú breyting taki ekki aðeins til brota sem verða rannsökuð eftir að lögin taka gildi heldur gildi einnig afturvirkt um mál sem þegar eru í rannsókn. Að öðru leyti er stefnt að því að breytingarnar taki gildi um áramótin.

Frestur til umsagna er skammur eða til 12. nóvember næstkomandi. Hægt er að smella hér til að lesa drögin í heild sinni.