Verðbólgan hérlendis mældist 10,2% í febrúar, sem er mesta verðbólga frá árinu 2009. Þegar verðbólgan byrjaði að láta á sér kræla í faraldrinum var hún drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði. Í dag hefur sá markaður kólnað verulega og er verðbólgan nú að stórum hluta innflutt.
Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, bendir þó á að þegar kemur að smásölumarkaðnum á Íslandi komi hækkanirnar ekki allar utan frá. Hún bætir við að aðgerðir stjórnvalda sem snúa að regluverki í kringum landbúnaðinn gætu haft umtalsverð áhrif á verðmyndun og framboð á matvörum.
„Hlutdeild innlendrar framleiðslu af vörusölu Krónunnar hefur verið á bilinu 58-60% á undanförnum árum. Það eru nokkur tilvik þar sem ætla má að breytingar á regluverkinu í kringum landbúnaðinn gætu leitt til verðlækkana á dagvörumarkaði. Verðlagsnefnd búvara stýrir t.a.m. kostnaðarverði á mjólk og mjólkurafurðum frá MS og hefur bein áhrif á kostnaðarverð annarra innlendra mjólkurframleiðenda og þar með verðlag í landinu,“ segir Ásta.
Nánar er fjallað um verðbólguna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.