Magnús Árnason hefur óskað eftir að láta af störfum hjá Nova. Hann hefur starfað sem þjálfari og framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar frá árinu 2017. Samhliða því að Magnús lætur af störfum hefur Nova fækkað stöðum í framkvæmdastjórn sinni.

„Samhliða því að Maggi lætur af störfum verða gerðar breytingar á leikskipulagi Nova og fækkun verður í skemmtana- & framkvæmdastjórn. Breytingarnar taka gildi í dag,“ segir í tilkynningu Nova til Kauphallarinnar.

Við breytingarnar mun sviðið stafræn þróun færast yfir í sviðið tækni, sem framvegis mun nefnast tækni & nýsköpun. Staða framkvæmdastjóra tækni & nýsköpunar verður auglýst.

Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs, mun taka við nýju hlutverki innan Nova og verða tækniþróunarstjóri. Benedikt mun leiða hið tækni & nýsköpun þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.

Fjármál verða Frammistaða

Auk framangreindra breytinga kemur fram að fjármálasvið Nova muni framvegis heita Frammistaða „með aukinni áherslu á greiningar og upplýsingagjöf“. Þórhallur Jóhannsson verður áfram „þjálfari og framkvæmdastjóri þess sviðs“.

Þá færast markaðsmál og viðskiptaþróun yfir í sölu & þjónustu sem framvegis nefnist Nova upplifun. Þuríður Björg Guðnadóttir mun áfram leiða það svið sem „okkar aðal klappstýra, þjálfari og framkvæmdastjóri“.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:

„Í Nova liðinu er hópur einstaklinga sem leggja sig fram við að veita góða þjónustu, hlúa að ánægju viðskiptavina og vera í forystu í tæknibreytingum og innleiðingu á nýjustu tækni í fjarskiptum. Nova er nú orðið eitt af stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækjum landsins og hefur frá upphafi lagt áherslu á framsækna fyrirtækjamenningu með framúrskarandi starfsfólki.

Með breytingunum opnast ný tækifæri bæði fyrir Magga, Benna og Nova. TAKK til þeirra og ósk um gott gengi í nýjum áskorunum.“