Frestur til að skila umsögn um frumvarp innviðaráðherra um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga rann út í vikunni en alls bárust 38 umsagnir. Flestir umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð endurskoðun laganna en gagnrýndu þó ákveðnar breytingar, einna helst ákvæði 3. málsgreinar 13. greinar sem kveður á um lækkun framlaga úr sjóðnum ef sveitarfélag fullnýtir ekki heimild sína til álagningar útsvars.
Langflest sveitarfélög landsins fullnýta útsvarsheimild sína, eða sem nemur 14,97% árið 2025. Ellefu sveitarfélög eru þó með lægri útsvarsprósentu, þar á meðal Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Garðabær og Hafnarfjarðarbær og gagnrýna þau breytinguna harðlega.
Telja þau breytinguna til þess fallna að refsa sveitarfélögum sem ekki eru með útsvar í hæstu hæðum. Þá feli ákvæðið í sér brot á stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaga til að ákvarða hvernig tekjustofnar þess séu nýttir.
Vilja endurskoða kerfið í heild
Samtök atvinnulífsins, SA, og Viðskiptaráð taka undir þessi sjónarmið sveitarfélaganna. Bæði SA og Viðskiptaráð segja að í frumvarpinu sé að finna ýmsar jákvæðar og tímabærar breytingar en mikilvægt sé þó að jöfnunarkerfið rýri ekki athafnafrelsi eða dragi úr hvötum til umbóta og framfara. Endurskoða þurfi kerfið í heild en núverandi kerfi sé haldið annmörkum og vinni gegn hagræðingu og ráðdeild á sveitastjórnarstigi.
Hvað ákvæði 13. greinar varðar bendir SA á að öllum sveitarfélögum sé gert að greiða hlutfall útsvarstekna sinna í Jöfnunarsjóð en einhver sveitarfélög fái minna úr sjóðnum en þau greiða í hann.
„Tilvist sjóðsins og núverandi fyrirkomulag gerir þannig vel reknum sveitarfélögum erfiðara fyrir að skila góðum rekstri til íbúa í formi lægri skattheimtu. Sveitarfélög í góðum rekstri hafa burði til að innheimta lægri skatta en önnur og hafa enga þörf á fjárhagslegum stuðningi sem önnur sveitarfélög og ríkissjóður standa straum af. Ætti það að vera öllum sveitarfélögum kappsmál, sérílagi ef raunveruleg innistæða á að vera fyrir fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Ljóst er að tilvist Jöfnunarsjóðs skapar ýmsa óæskilega hvata í rekstri sveitarfélaga og ærið tilefni er til þess að taka jöfnunarfyrirkomulagið til gagngerrar endurskoðunar,“ segir í umsögninni.
Samtökin telja þá hverslags hvata til meiri skattheimtu varasama og að mikilvægt sé að standa vörð um fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga og hvata til að lækka álögur á íbúa sveitarfélaga sem skila góðum rekstri.
Viðskiptaráð vekur þá athygli á þeim rökstuðningi sem fram kemur í frumvarpinu að sveitarfélög sem innheimta ekki hámarksútsvar fái ekki úthlutað framlögum úr jöfnunarsjóði til að bæta upp slíkt „tap“.
„Þessi nálgun orkar tvímælis og hvetur sveitarfélög til skattahækkana en vinnur samtímis gegn rekstrarhagræði vegna þess að vel rekin sveitarfélög sem eru hagkvæm að stærð greiða framlög til hinna smærri og óhagkvæmari,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Óljóst hlutverk og lítill hvati til sameiningar
Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð gera sömuleiðis athugasemdir við aðra þætti frumvarpsins, þar á meðal hvað varðar hlutverk Jöfnunarsjóðs. Að þeirra mati ætti meginhlutverk hans að einskorðast við að aðstoða sveitarfélög að takast á við þau verkefni sem færð hafa verið frá ríki til sveitarfélaga og auðvelda aðlögun að þeim breytingum. Bent er á að rekstur sumra sveitarfélaga væri ósjálfbær ef ekki væri fyrir framlög Jöfnunarsjóðs, sem skjóti skökku við þegar áhersla er lögð á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga.
Viðskiptaráð bendir enn fremur á að ákveðin sveitarfélög nýti framlög sjóðsins til að fjármagna gjaldfrjálsa þjónustu á meðan önnur fjármagna þau með sköttum og gjöldum.
„Sveitarfélög sem hafa um nær helming tekna sinna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga nýta framlögin til að bjóða gjaldfrjálsa þjónustu á meðan íbúar hagkvæmari sveitarfélaga greiða fyrir sömu þjónustu. Þetta skýtur skökku við og sýnir að há framlög úr Jöfnunarsjóði koma í veg fyrir ráðdeild í rekstri sveitarfélaga og viðhalda þannig óhagkvæmni á sveitastjórnarstigi,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Þá er bent á að Jöfnunarsjóður í núverandi mynd vinni gegn sameiningum sveitarfélaga. Vekur Viðskiptaráð þannig athygli á dæmi séu um að framlög skerðist við sameiningar samkvæmt valkostagreiningum og tillögum verkefnastjórna um sameiningar sveitarfélaga undanfarin ár.

„Þá vinnur núverandi fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs gegn einni stærstu sameiningartillögu frá aldamótum. Á grundvelli gildandi úthlutunarreglna yrðu tekju- og útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins til sameinaðs sveitarfélags Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga skert sem nemur 675 m. kr. á ári. Í fyrirliggjandi frumvarpi er sveitarfélögum tryggt sérstakt framlag í fjögur ár sem nemur mögulegri skerðingu í kjölfar sameiningar. Hins vegar er óljóst hvað tekur við í kjölfarið. Viðskiptaráð telur mikilvægt að tryggja að Jöfnunarsjóður vinni ekki gegn sameiningum sveitarfélaga með þeim hætti sem lýst er hér að ofan, t.d. með því að tryggja sameinuðum sveitarfélögum óskert framlög,“ segir enn fremur í umsögn Viðskiptaráðs.