Í útboðslýsingu fyrir tilvonandi útboð Ölgerðarinnar er meðal annars fjallað um ýmsa löggjöf sem snertir rekstur fyrirtækisins. Félagið segir að breytingar á áfengislöggjöfinni, t.d. í átt til aukins frjálsræðis og frekari hækkun áfengisgjalda kunni að hafa neikvæð áhrif á rekstur félagsins.
Er tekið til umfjöllunar að nýlega hefur borið á því að einkaaðilar reyni á túlkun laga með sölu áfengis í vefverslunum til íslenskra neytenda, en eru þó með lager á Íslandi til þess að ná skjótum afhendingartíma.
„[…]er samkvæmt lögum um verslun með áfengi og tóbak ekki leyfilegt að selja áfengi í öðrum verslunum á Íslandi en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins („ÁTVR“) og er almenn sala í verslunum og stórmörkuðum því ekki heimil eins og tíðkast víða.“ segir í útboðslýsingu Ölgerðinnar. Félagið telur að ef fyrrnefnd lög taki breytingum gæti það gefið ýmsum aðilum kost á því að byrja að selja áfengi, hvort sem er í búðum eða vefverslunum. Telur félagið að slíkt gæti gjörbreytt samkeppnisumhverfi hér á landi og skapað hvata fyrir nýja aðila til innflutnings og sölu. Að mati Ölgerðarinnar er hugsanlegt að það hafi neikvæð áhrif á rekstur félagsins.
Ölgerðin er með sterka markaðshlutdeild í verslunum ÁTVR. Þannig var 37% af öllum seldum bjór í verslunum ríkisins frá Ölgerðinni, 33% af sterku víni, 15% af léttvíni og 61% af víngosi.
Í ársreikningi Ölgerðarinnar kemur fram að 15 milljarðar af 32 milljarða veltu Ölgerðarinnar á síðasta rekstrarári hafi komið frá áfengishluta félagsins, sem nefnist Egils áfengt. Þá nam rekstrarhagnaður áfengishlutans 448 milljónum króna af 2,5 milljarða rekstrarhagnaði Ölgerðarinnar.
Markaðshlutdeild þriggja stærstu innlendu vefverslana með áfengi er enn sem komið er einungis um 2,5% en markaðshlutdeild ÁTVR 97% að því er kom í nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins byggt á gögnum frá Meniga.
Í komandi útboði Ölgerðarinnar boðnir til kaups 29,5% af hlutafé félagsins. Hlutirnir verða seldir í almennu útboði sem er áætlað að hefjist á mánudaginn.