Landsvirkjun segir að fyrirhuguð aðferðafræði stjórnvalda við skattlagningu orkumannvirkja sé flókin og matskennd. Ríkisfyrirtækið óttast að áformin muni hafa í för með sér deilur og málaferli milli aðila. Þá telur Landsvirkjun að skekkja sé í útreikningum sem liggja til grundvallar áformanna.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra kynnti um miðjan maí áform um afnám á undanþágu rafveitna (vatnsafls- og jarðvarmavirkjanna og vindmylla) frá fasteignamati. Undanþágan hefur leitt til þess að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu er undanþeginn fasteignaskatti.

Ráðuneytið áætlar að breytingin hafi í för með sér að fasteignamat rafveitna hækki úr 82 milljörðum króna í 1.358 milljarða króna, með tilheyrandi hækkun á fasteignaskatti. Ráðuneytið áætlar að skatttekjur sveitarfélaga verði samtals á bilinu 3-5 milljarðar króna á ári eða 2-3,5 meira meðaltal áranna 2018-2021.

Þá er lagt til að þriðji aðili muni taka að sér innheimtu fasteignaskatts rafveitna í stað sveitarfélaganna sjálfra og dreifi skattinum til sveitarfélaga og til Jöfnunarsjóðs eftir atvikum.

Feli í sér umtalsvert flækjustig

Í umsögn sem Landsvirkjun skilaði inn í Samráðsgátt í gær segir tillagan virðist fela í sér matskennd viðmið á skattstofni, aðkomu þriðju aðila og „umtalsvert flækjustig“ sem gæti unnið gegn sjónarmiðum breiðrar sáttar og haft í för með sér deilur og málaferli milli aðila.

„Lengi hefur verið reynt að skýra ramma núverandi kerfis sem hefur verið staðfestur með fjölda dómsmála. Að mati Landsvirkjunar færi betur á því að nýta opinberar upplýsingar til grundvallar útreiknings en að útfært sé nýtt kerfi með tilheyrandi flækjustigi.“

Landsvirkjun telur nauðsynlegt aðferðafræðin sem reiknilíkanið byggir á verði útfærð og kynnt betur, með einfaldleika í huga.

Sú aðferðafræði sem hafi verið kynnt virðist svipa til þeirrar sem notuð er til að verðmeta fyrirtæki. Slík nálgun byggi á mati á fjölmörgum forsendum sem á þessu stigi séu óljósar.

„Landsvirkjun telur mjög mikilvægt í nánari útfærslu að forðast það að forsendur verði matskenndar og teldi skynsamlegri nálgun að þær upplýsingar sem liggi til grundvallar nýjum skattstofni verði fengnar úr opinberum ársreikningum orkufyrirtækja. Mikilvægt er að komast hjá því að nýtt regluverk leiði til deilna um túlkun og mögulegra málsókna.“

Að mati Landsvirkjunar væri jákvætt að skoða hvort miða ætti frekar við eignarstofn opinberra endurskoðaðra ársreikninga orkufyrirtækja sem nærtækari og einfaldari lausn.

Erfitt að heimfæra rafveitur undir fasteign

Landsvirkjun segir erfitt að sjá rök fyrir því að fella niður undanþágu rafveitna frá fasteignamati. Óljóst sé hvort afnám undanþágunnar skili tilætluðum árangri, enda sé erfitt að heimfæra eignir eða einingar sem teljast til rafveitna undir hugtakið fasteign aðrar en þær sem nú þegar teljast til skattandlags fasteignaskatts.

„Það reynist enn fremur vandasamt að réttlæta slíkt afnám einungis gagnvart rafveitum, þegar sambærilegar eignir munu enn njóta undanþágu samkvæmt ákvæðum löggjafans, svo sem vegir, flugvellir í opinberri eigu, vatnsveitur, flutningsvirki o.fl.“

Landsvirkjun bendir einnig á að fjöldi dóma hafa gengið að undanförnu um það hvernig eigi að skýra útreikning fasteignamats af dæluhúsum og sambærilegum mannvirkjum. Afnám undanþágu rafveitu frá fasteignamati gæti sett þau fordæmi og núverandi framkvæmd í uppnám.

„Ítrekar Landsvirkjun þá skoðun að einfaldara gæti verið að taka upp nýjan skattstofn eða hækka skattstofn fasteignaskatts á þann hluta rafveitna og annarra orkumannvirkja sem nú þegar eru skattlögð með breyttum reikniaðferðum.“

Skekkja í forsendum

Í umsögninni talar Landsvirkjun um skekkju í forsendum frumvarpsins sem varða skattgreiðslur orkufyrirtækja á síðustu árum. Skattgreiðslur fyrirtækisins á undanförnum árum hafi verið umtalsvert hærri en nefndar eru í framlögðu mati ráðuneytisins á áhrifum lagasetningarinnar.

Í áformaskjalinu hafi verið lagðar til grundvallar tölur frá árunum 2018-2021, sem Landsvirkjun telur fela í sér „umtalsvert vanmat“ á raunverulegum greiðslum sem hafi aukist á undanförnum þremur árum.

Auk þess þurfi að taka tekjuskattsgreiðslur orkuframleiðenda með í heildarmynd greiðslna. Landsvirkjun bendir á að tekjuskattshlutfall fyrirtækisins er 37,6% en ekki 20% líkt og hjá hlutafélögum.

Landsvirkjun bendir á að á árunum 2022-2024 hafi greiðslur frá Landsvirkjun einni og sér aukist umtalsvert.

Taka undir þörf á breytingum

Landsvirkjun styður þó að stjórnvöld stefni að því að taka skref í þá átt að tryggja „réttlátari“ skiptingu tekna af orkuvinnslu. Fyrirtækið hafi skilning á því skilning að núverandi fyrirkomulag tryggi ekki dreifingu tekna í samræmi við áhrif af orkuvinnslu og að það hafi valdið óánægju í nærsamfélögum virkjana.

„Landsvirkjun leggur áherslu á að orkuvinnsluaðilar greiði nú þegar umtalsverðar fjárhæðir í skatta og gjöld, en í núverandi fyrirkomulagi er það oft ójöfn skipting á fasteignagjöldum milli sveitarfélaga sem veldur óánægju auk skerðinga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á framlögum til orkusveitarfélaganna.

Fyrirtækið hefur við mörg tækifæri áréttað að mikilvægt sé að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og stuðla þannig að stuðningi og sátt nærsamfélaga við frekari uppbyggingu endurnýjanlegrar orku.“

Landsvirkjun leggur hins vegar áherslu á að það kerfi sem verið sé að undirbyggja verði byggt með einfaldleika og skilvirkni í huga