Bakarískeðjan Brikk hagnaðist um 1,6 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er fyrsta rekstrarárið sem félagið skilar hagnaði frá því að þeir Einar Hjörvar Benediktsson, Oddur Smári Rafnsson og Davíð Magnússon opnuðu fyrsta kaffihúsið árið 2017 í Hafnarfirði.

Velta félagsins nam 450 milljónum króna samanborið við 486 milljónir árið áður. Launakostnaður dróst saman um meira en þriðjung og nam 156 milljónum króna.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl í fyrra sagðist Einar finna fyrir mikilli eftirspurn þrátt fyrir að fyrstu rekstrarár bakarískeðjunnar hafi reynst krefjandi.

„Síðustu rekstrarár hafa verið hausverkur og hafði Covid áhrif á okkur eins og aðra í geiranum. Við sjáum hins vegar fram á það að öll erfiðisvinnan síðustu ár sé loks að fara skila sér í góðri afkomu. Við erum mjög bjartsýnir á framtíðina,“ sagði Einar.

Brikk hefur vaxið hratt frá því að fyrsta útibúið opnaði árið 2017 í Hafnarfirði. Árið 2019 opnaði Brikk sitt annað útibú á Mýrargötu sem var þó nýverið lokað. Árið 2021 opnaði Brikk þriðja útibúið í Kársnesinu.

Brikk opnaði dyr sínar að Dalvegi í Kópavogi á síðasta ári þegar félagið tók yfir fyrrverandi húsnæði pizzastaðarins Spaðans. Þá opnaði Brikk fyrir kvöldopnanir í útibúi sínu í Hafnarfirði fyrr á árinu með Brikk Bistro. Þar er boðið upp á pizzur, kjúklingavængi og aðra smárétti.

Nú er Brikk að opna sitt fjórða útibú að Háteigsvegi 1. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að nýja bakaríið verði smærra í sniðum en því sem lokað var á Mýrargötu. Færri sæti verði inni en meira lagt upp með að fólki taki veitingar með sér.